Innlent

Skapaði stórhættu á mótorhjóli undir Ingólfsfjalli og endaði á KFC

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óhætt er að segja að fífldjarfur ökumaður mótorhjóls hafi skapað sér og öðrum í umferðinni stórhættu undir Ingólfsfjalli um kvöldmatarleytið í gær. Á myndbandi sem náðist má sjá mótorhjólið skjóta sér á milli bíla á hraða  langt yfir hámarkshraða.

Ökumaður bílsins sem tók upp myndbandið var á um hámarkshraða þegar brunað var fram úr honum en hámarkshraði á þessum slóðum er 90 km/klst.

Vegakaflinn á milli Hveragerðis og Selfoss þykir afar hættulegur en þar hafa orðið banaslys. Eru skilti á svæðinu sem minna á þá staðreynd auk þess sem hraðamyndavélar eru vestan Ingólfsfjalls.



Mótorhjólið fyrir utan KFC á Selfossi. Númeraplatan er beygluð og erfitt að greina númerið af þeim sökum.
Svo virðist sem ökumaður mótorhjólsins hafi gert ráðstafanir varðandi númeraplötuna á mótorhjólinu en mynd af fararskjótanum náðist fyrir utan skyndibitastaðinn KFC á Selfossi nokkrum mínútum eftir framúraksturinn glæfralega. 

Þar sést glögglega að búið er að beygla númeraplötuna og erfitt að greina númerið af þeim sökum.

Ekki fylgir sögunni hvort löngun í kjúklingabita hafi valdið fyrrnefndum aksturstilburðum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×