Innlent

Utanríkisráðherrar Íslands og Bangladesh funduðu í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Abdul Hassan Mahmood Ali.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Abdul Hassan Mahmood Ali. Utanríkisráðuneytið
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fundaði með Abdul Hassan Mahmood Ali, utanríkisráðherra Bangladesh fyrr í dag. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir meðal annars , loftslagsmál, efnahagsmál, samvinna á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar og mannréttindamál. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Bangladesh er í hópi þeirra ríkja sem munu finna mest fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga vegna láglendis við sjó, og því voru loftslagsmál mikið rædd á fundinum.

Síðar í dag mun utaríkisráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál á Alþingi. Hún segir samninginn leggja sérstaka ábyrgð á þróuð ríki. Þeim bæri að sýna forystu þar sem þau eru í betri efnahagslegri stöðu til að takast á við vandann, auk þess að bera ábyrgð á stórum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda.

Þá ræddu utanríkisráðherrarnir einnig samvinnu á sviði sjávarútvegs, þá sérstaklega í gegnum Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, en nemendur frá Bangladesh hafa stundað nám við skólann.

Bangladesh hefur nýlega fengið niðurstöðu í afmörkun efnahagslögsögu sinnar og sýndi Al reynslu Íslands af sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda sérstakan áhuga. Lilja Dögg segir Bangladesh vera í sambærilegri stöðu og Ísland var fyrir hálfri öld og að þarlendir ráðamenn þekki vel til reynslu og þekkingar Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×