Innlent

Kári safnar liði: „Munum gera allt sem við getum til þess að sannfæra kjósendur um að hunsa ykkur“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kári er harðorður í garð ráðamanna.
Kári er harðorður í garð ráðamanna. vísir/gva/vilhelm
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist vera að safna liði til að fylgjast með hvernig stjórnarflokkarnir sinna heilbrigðiskerfinu. Verði ekki farið í raunverulegt átak muni hópurinn gera allt til þess að sannfæra kjósendur til að hunsa flokkana í komandi kosningum.

Munu aldrei leggja út fé geri þeir það ekki núna

„Ef þið gerið ekki raunverulegt átak, sem ætti að vera auðvelt fyrir ykkur vegna þess að fjárhirslur ríkisins eru að springa af peningum og meiri uppgangur í efnahagslífi þjóðarinnar en í nokkurn annan tíma, þá munum við gera allt sem við getum til þess að sannfæra kjósendur um að hunsa ykkur,“ segir Kári í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Ólíklegt sé að þeir sem treysti sér ekki til að setja fé í heilbrigðiskerfið rétt fyrir kosningar muni gera það að kosningum loknum.

„Við munum einnig gera okkar besta til þess að sjá til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir heiti stuðningi við heilbrigðiskerfið á þann hátt að það verði ekki auðveldlega svikið. Við fylgjumst með því hvernig haldið er utan um velferðarkerfið í heild sinni, bæði það sem er á ábyrgð ríkis og bæjar og svo stöndum við vaktina að kosningum loknum,“ segir Kári.

Ástæða orða Kára er viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í hádegisfréttum Bylgjunnar á mánudag þar sem hann sagði það beinlínis rangt að ríkisstjórnin hafi ekki látið athafnir fylgja orðum um aukin útgjöld til heilbrigðismála. Þá sé það fullkomlega óraunhæft að auka í einu vetfangi útgjöldin um fimmtíu milljarða króna líkt og forsendur undirskriftasöfnunar Kára Stefánssonar gengu út á.

Hefði átt að „sýna félagshyggjutröllið“

Kári segir í grein sinni að krafan hans sé metnaðarfull fyrir hönd heilbrigðiskerfisins en ekki úr takti við það sem gerist víða annars staðar í heiminum, meðal þjóða sem séu mun fjölmennari en Ísland og geti því að öllum líkindum hagrætt meira í heilbrigðiskerfum sínum. „Ég held því fram að krafan sé skynsamleg og í samræmi við vilja fólksins í landinu, en það er líka bara órökstudd skoðun og bendir til þess að við séum ekki sammála um allt,“ segir hann.

Jafnframt biður Kári Bjarna Benediktsson afsökunar á grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku um heilbrigðiskerfið. „Ekki á því sem ég sagði um þig, vegna þess að það er allt meira og minna satt, heldur á því að ég skyldi hafa þig einan í mynd í stað þess að láta sjást í aðra,“ segir Kári.

„Ég hefði til dæmis átt að sýna félagshyggjutröllið og borgarstjórann hann Dag B. Eggertsson sem ríkir í umboði Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Besta flokksins;“ segir hann og vísar til erfiðrar stöðu hjá grunn- og leikskólum borgarinnar, en grein Kára má lesa í heild hér.


Tengdar fréttir

Eyrað við jörðina: ekki nóg, ekki nóg – Hvatning til Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson, hæstvirtur fjármálaráðherra, það er ljóst að þú og þínir tóku grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn var sem hvassa gagnrýni á þína persónu og hana ósanngjarna. Þetta er skiljanlegt vegna þess að ég nýtti þig kannski um of sem hluta fyrir heild




Fleiri fréttir

Sjá meira


×