Innlent

40 milljónir til Hugarafls og Félags fagfólks í frítímaþjónustu

Birta Svavarsdóttir skrifar
Frá undirritun samninga.
Frá undirritun samninga. EUF
Evrópa unga fólksins veitti í dag styrk upp á 40 milljónir króna til Hugarafls og Félags fagfólks í frítímaþjónustu, en hvort verkefni hlýtur um 20 milljónir króna í sinn hlut. Þetta eru hæstu styrkirnir sem veittir eru á árinu, en Evrópa unga fólksins úthlutar árlega um 200 milljónum króna í styrki til fjölbreyttra verkefna á sviði æskulýðsmála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Evrópu unga fólksins í dag.

Verkefni Hugarafls felur í sér þróun á námsefni og aðferðum til að nota í óformlegu námi og er markmið verkefnisins að auka þekkingu fólks á málefnum ungs fólks sem glímir við andleg veikindi. Meðal þess sem þróað verður í verkefninu er spennandi borðspil sem gefið verður út á fjórum tungumálum og notað í skólum og félagsmiðstöðum. Þróun borðspilsins fer fram í samstarfi við félagasamtök í Rúmeníu, Portúgal og á Spáni og er verkefnið til tveggja ára.

Verkefni Félags fagfólks í frítímaþjónustu felur í sér að vinna að gerð námskeiðs, námsefnis og matstækis fyrir starfsfólk í æskulýðsgeiranum. Verkefnið er unnið í samstarfi við sambærileg samtök í Svíþjóð og Finnlandi og er til þriggja ára.

Næsti umsóknarfrestur um styrki hjá Evrópu unga fólksins er 4. október 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×