Innlent

Tónlistarmenn fái 25% endurgreiðslu vegna hljóðritunar verði frumvarp ráðherra að lögum

Birgir Olgeirsson skrifar
Er markmiðið með þessu frumvarpi að efla tónlistariðnað á Íslandi.
Er markmiðið með þessu frumvarpi að efla tónlistariðnað á Íslandi. Vísir/Andri
Ríkið mun endurgreiða tónlistarmönnum 25 prósent  kostnaði  við hljóðritun á Íslandi ef að frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, verður að lögum. Ragnheiður lagði frumvarpið fyrir Alþingi í dag en þar kemur fram að ef meira en 80 prósent af kostnaði við hljóðritun fellur til á Íslandi verður heimilt að endurgreiða 25 prósent af þeim kostnaði sem fellur til á evrópska efnahagssvæðinu.

Er markmiðið með þessu að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi.

Við undirbúning frumvarpsins var kallaður saman starfshópur ráðuneytinu til ráðgjafar en í honum sátu Erna Jónsdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Eiður Arnarsson framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðanda, Kjartan Guðbergsson markaðsstjóri Gray Line, Pétur Jónsson upptökustjóri og eigandi Medialux og Jónas Sigurðsson tónlistarmaður.

Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að meðalendurgreiðsla fyrir hverja samþykkta umsókn verði um 625 þúsund krónur. Ef gert er ráð fyrir 130 samþykktum umsóknum á ári mun áætlaður heildarkostnaður við beinar endurgreiðslur nema um það bil 81 milljón króna á ári.  Verði frumvarp þetta að lögum er það talið styrkja innviði tónlistariðnaðarins og verða hvatning fyrir innlenda sem erlenda aðila til að hljóðrita tónlist hér á landi. Þá mun umsóknarferlið einnig leiða af sér auknar hagupplýsingar varðandi tónlistarútgáfu hér á landi.

Til að útgefandi geti hlotið endurgreiðslu vegna hljóðrita sem gefin hafa verið út og gerð aðgengileg almenningi skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt samkvæmt frumvarpinu:

  • Samanlagður spilunartími tónlistar hljóðritanna nái 30 mínútum.
  • Hljóðritin séu gefin út á 18 mánaða tímabili.
  • Ekki séu liðnir sex mánuðir frá því að nýjasta hljóðritið var gefið út.
  • Sundurliðað bókhald liggi fyrir um endurgreiðsluhæfan kostnað sem féll til við hljóðritun ásamt afritum reikninga.
  • Upplýsingar liggi fyrir um þá aðila sem komu að hljóðritun og tónlistarflutningi.
  • Hljóðritin hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi.
  • ISRC-kóða hafi verið úthlutað fyrir hljóðritin og fullnaðarskráningu hljóðritanna lokið á www.hljodrit.is.
  • Fullnaðarskráningu hljóðritaðra verka hafi verið lokið hjá viðurkenndum höfundaréttarsamtökum sem og höfundargreiðslu ef við á.
  • Upplýsingar liggi fyrir um það hvernig hljóðritin hafi verið gerð aðgengileg almenningi.
  • Útgefandi eigi ekki vangreidda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar vangoldnar opinberar kröfur.
Nánar má lesa um frumvarpið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×