Innlent

Sigurður Ingi búinn að leggja fram frumvarp um kosningar 29. október

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. Vísir/Stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis að núverandi þingi ljúki 29. október næstkomandi. Í frumvarpinu kemur fram að þann dag, 29. október, sé áformað að alþingiskosningar fari fram.

Setning reglulegs Alþingis 2016, sem að óbreyttu ætti að fara fram 13. september næstkomandi, frestast því og mun verða sett þegar forseti Íslands hefur stefnt Alþingi saman að afloknum kosningum.

Þar sem fyrirhugaðar alþingiskosningar munu fara fram áður en kjörtímabil al­þingismanna rennur út þarf að rjúfa þing á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar til að kalla fram kosningar. Tilkynning um þingrof felur í sér hina formlegu ákvörðun um kjördag. Samkvæmt 24. greininni skulu alþingiskosningar fara fram innan 45 daga frá því að þingrof er tilkynnt. Sam­kvæmt þessu er fyrst hægt að tilkynna um þingrof 15. september næstkomandi miðað við kjördag 29. október.

Í frumvarpi Sigurðar Inga er tekið fram að þingið geti starfað áfram þótt þingrof hafi verið tilkynnt enda haldi þingmenn umboði sínu til kjördags samkvæmt stjórnarskránni.  Þó er gert ráð fyrir að þingfundum verði frestað með hæfilegum fyrirvara svo stjórnmálaflokkum og frambjóðendum gefist eðlilegur tími til undirbúnings og þátttöku í kosningabaráttu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×