Innlent

Á fjórða tug hefur sótt um stöðuna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jens Garðar Helgason, formaður SFS.
Jens Garðar Helgason, formaður SFS. vísir/gva
Nýr framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) verður ráðinn á næstu dögum. Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður SFS.

Samtökin hafa verið framkvæmdastjóralaus í rúma fjóra mánuði. Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri, sagði starfi sínu lausu í byrjun apríl. Síðan þá hefur Jens Garðar gegnt skyldum framkvæmdastjóra.

„Umsóknarfrestur rann út núna í sumarbyrjun og svo misstu menn þetta aðeins inn í sumarfríið. Þetta er að klárast á næstu dögum geri ég ráð fyrir,“ segir Jens Garðar, spurður um hvers vegna ráðningarferlið hafi tekið eins langan tíma og raun ber vitni.

Þá segir hann fjölda hafa sótt um. „Það var á fjórða tug sem sótti um,“ segir Jens Garðar.

Illugi Gunnarsson, fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra, hafði verið orðaður við embættið en hann tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis í komandi kosningum.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi hins vegar frá því í gærdag að Illugi hefði ekki sótt um stöðuna og sagði Illugi sjálfur í viðtali í Bítinu á Bylgjunni að hann væri ekki kominn með aðra vinnu. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×