Innlent

Vara við sundpokum sem þrengt geta að öndunarvegi barna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
VÍS varar við sundpokum sem geta þrengt að öndunarvegi barna.
VÍS varar við sundpokum sem geta þrengt að öndunarvegi barna. mynd/vís
VÍS varar fólk við sundpökum sem eru með riflásum á böndunum sem gefa eftir ef átak kemur á bandið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en þar segir að dæmi séu um að böndin hafi farið utan háls barna og þrengt að öndunarvegi þeirra.

Slíkt slys varð á Akureyri í sumar þegar drengur var að hjóla heim til sín með sundpoka á bakinu. Hann hafði í óðagoti sett böndin þannig að þegar strekktist á þeim runnu þau utan um háls hans. Þegar böndin drógust svo inn í gjörð á hjólinu þrengdu þau hratt að öndunarveginum.

mynd/vís
Þorvaldur Þorsteinsson faðir drengsins segir að hann hafi ekki sjálfur getað leyst flækjuna sem komin var um hálsinn en það hafi orðið honum til happs að tvær eldri konur hafi borið að þar sem drengurinn átti orðið erfitt með andardrátt.

„Konurnar losuðu böndin í hvelli og vil ég þakka þeim kærlega fyrir snarræðið. Jafnframt minni ég foreldra á að ræða þessa hættu við börn sín og brýna fyrir þeim að þau vefji böndunum aldrei utan um hálsinn,“ er haft eftir Þorvaldi í tilkynningu VÍS.

Til að minnka hættu á svona slysum getur verið skynsamlegt að stytta böndin á pokunum svo þau flækist síður í eitthvað. Þannig sitja pokarnir einnig bæði þægilegar og ofar á baki barnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×