Innlent

Ísland undir meðaltali OECD í þróunaraðstoð

Fjárveitingar til flóttamanna ríflega tvöfölduðust milli ára.
Fjárveitingar til flóttamanna ríflega tvöfölduðust milli ára. Nordicphotos/AFP
Þróunaraðstoð í heiminum nam 131,6 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 16.400 milljarða íslenskra króna á síðasta ári. Heildarfjárhæðin hækkaði um 6,9 prósent á milli ára, og fjármunir sem varið var í málefni flóttamanna ríflega tvöfölduðust milli ára og námu 12 milljörðum Bandaríkjadala, 1.500 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Þróunarsamvinnunefndar efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD (DAC). Ísland, sem tilheyrir DAC-nefndinni, varði lægri fjárhæð til þróunarmála en nemur meðaltali OECD-ríkja.

Opinber þróunaraðstoð frá 28 löndum sem tilheyra DAC nam að meðaltali 0,3 prósentum af vergri landsframleiðslu, sem var sama hlutfall og árið áður. Íslendingar vörðu hins vegar einungis 0,24 prósentum af vergri landsframleiðslu til þróunarmála árið 2015.

Aðstoð til fátækustu ríkja heims jókst um fjögur prósent milli ára. Fjárveitingar til þróunaraðstoðar jukust í 22 af 28 löndum og hækkuðu mest í Grikklandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Mesti niðurskurður í þróunaraðstoð var í Portúgal og Ástralíu.

Einungis sex af 28 þjóðunum, Danmörk, Lúxemborg, Holland, Noregur, Svíþjóð og Bretland, náðu markmiði Sameinu þjóðanna um að verja 0,7 prósentum af árlegri vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×