Innlent

Vinna að því að breyta þjónustu svo fatlaðir fái aðstoð utan opnunartíma

Jóhann K Jóhannsson skrifar
Fatlaðir eiga erfitt með að fá aðstoð bili hjálpartæki þeirra utan venjulegs opnunartíma. Deildarstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands segir að unnið sé að úrbótum. Fréttablaðið greindi í morgun frá gangrýni Öryrkjabandalagsins vegna þjónustuleysis Sjúkratrygginga Íslands utan hefðbundins opnunartíma ef einstaklingur lendir í vandræðum með hjálpartæki.

Engin þjónusta er veitt um helgar og eftir klukkan þrjú á virkum dögum.

Dæmi eru um að hjólastólar hafi bilað eftir lokun á föstudegi og hefur ekki verið hægt að fá viðgerð eða þjónustu fyrr en í fyrsta lagi á mánudegi.

„Við vitum það að það geta skapast vandamál um kvöld og um helga, kannski helst um helgar. Breytingar eru fyrirhugaðar á þjónustunni á næstu misserum og við erum á fullu í þeirri vinnu. Það er hinsvegar ekki tímabært að greina frá þeim breytingum ennþá.“ segir Júlíana Hansdóttir Aspelund, deildarstjóri hjálpartækja hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Fram kemur á heimasíðu Sjúkratrygginga að stofnunin hafi verktaka sem sinni viðgerðum víða um landið og spurningin er hvort ekki væri hægt að leysa vandamálið með því að láta þá sinna bakvakt.

„Eins og ég segir þá erum við að skoða þetta og það er ekki ólíklegt að farið verði í að skoða þá þetta frekar hvað er hægt í þeim efnum.“

Sjúkratyggingar fá um 40 þúsund beiðnir um hjálpartæki á ári og er töluverð vinna unnin hjá starfsmönnum stofnunarinnar og verktökum.

„Við gerum okkur grein fyrir því að hjálpartæki eru nauðsynleg í lífi fólks og það er mikilvægt að bregðast við þegar upp koma bilanir og við reynum vissulega að gera það samdægurs í þeim tilfellum þar sem það er hægt.“

Júlíana segir að unnið sé að breytingum með fagaðilum meðal annars Öryrkjabandalagi Íslands.

„Þeir hafa komið eitthvað að borði. Þeir þekkja aðeins til þeirra umræðna sem hafa verið í gangi.“ segir Júlía að lokum.


Tengdar fréttir

Fatlað fólk fast heima yfir helgi ef tækin bila

Ef hjálpartæki fatlaðra bila á föstudegi er ekkert gert fyrr en á mánudegi því engin neyðarþjónusta er um helgar. Mörg dæmi eru um að fatlaðir komist ekki út vegna þessa. Er algjörlega ólíðandi, segir formaður Öryrkjabandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×