Enginn hefur oftar en Messi verið kosinn bestur og hefur hann tveggja Gullbolta forskot á næstu menn; Brasilíumanninn Ronaldo og nafna hans frá Portúgal, Cristiano Ronaldo.
Engin þjóð hefur unnið Gullboltann jafn oft og Brasilía (8 sinnum )þó verðlaunin hétu það reyndar ekki formlega fyrr en 2010 þegar útnefning besta fótboltamanns Evrópu og besta í heimi sameinuðust undir merkjum FIFA.
Metingurinn og samkeppnin milli Brasilíu og Argentínu í fótboltanum er mikill en Lionel Messi upp á sitt einsdæmi þarf „aðeins“ að vinna Gullboltann þrisvar sinnum í viðbót til að jafna árangur allra Brasilíumanna.

Romário var fyrsti Brassinn sem kosinn var bestur árið 1994 eftir að hann fór á kostum á HM í Bandaríkjunum og Ronaldo vann svo 1996 og 1997.
Rivaldo var kosinn bestur 1999 eftir frábært tímabil með Barcelona og Ronaldo fékk svo verðlaunin í þriðja sinn árið 2002 eftir að hann varð markahæstur á HM í Japan og Suður-Kóreu.
Ronaldinho tók svo við og var kosinn bestur bæði 2004 og 2005 áður en Kaká varð svo fimmti Brassinn til að hljóta útnefninguna árið 2007.
Kaká var jafnframt síðasti maðurinn sem vann áður en Messi og Ronaldo tóku að einoka verðlaunin en fyrrverandi AC Milan-maðurinn vann þarna áttunda Gullbolta Brasilíu.
Lionel Messi var kosinn bestur í fyrsta sinn árið 2009 og vann hann Gullboltann fjögur ár í röð áður en Ronaldo hreppti hnossið árin 2013 og 2014.
Messi vann svo í fimmta sinn í gær, en þökk sé honum er Argentína það land sem hefur næst oftast átt besta fótboltamann heims. Um er þó að ræða einn og sama manninn í öll skiptin.