Innlent

Lögreglumenn vilja að umboðsmaður kanni stöðuveitingar í lögreglunni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Þetta er hlutur sem hefur verið að gerast árum saman í lögreglunni,“ segir formaður landssambandsins.
„Þetta er hlutur sem hefur verið að gerast árum saman í lögreglunni,“ segir formaður landssambandsins. Vísir/Ernir
Landssamband lögreglumanna hefur sent umboðsmanni alþingis bréf og beðið hann um að rannsaka stöðuveitingar innan lögreglunnar. Snorri Magnússon, formaður landssambandsins, segir að fjölmargir lögreglumenn hafi gert athugasemdir vegna stöðuveitinga sem fara fram innan lögreglunnar án auglýsinga.

Margir lögreglumenn gert athugasemdir

„Það er ekkert sérstakt tilefni. Það hafa verið að berast umkvartanir frá félagsmönnum víða vegna þessa erindis sem er þarna í þessu bréfi. Það er verið að kvarta undan því að það sé verið að, í auknu mæli, að setja menn í stöður og ráða menn til starfa án auglýsinga,“ segir Snorri. „Þetta er hlutur sem hefur verið að gerast árum saman í lögreglunni.“ 

Snorri segir engin sérstök dæmi nefnd í bréfinu til umboðsmanns.Vísir/Vilhelm
Snorri segir að fjöldamörg álit séu til hjá umboðsmanni um einstaka mál sem lögreglumenn hafa sjálfir farið með til embættisins. „Umboðsmaður hefur gert við þetta athugasemdir, í þessum einstöku erindum og svo í almennum erindum og skýrslum sem hann hefur sent frá sér líka,“ segir hann.

„Okkur þótti einsýnt í ljósi þessum fjölda lögreglumanna sem hefur verið að ræða við okkur um þetta og benda okkur á þessar staðreyndir að fá umboðsmann til að gera á þessu frumkvæðisathugun,“ segir hann. 

Kannar kannski lögreglustjóraskipunina

Engin sérstök dæmi eru nefnd í bréfi lögreglumannanna til umboðsmanns en nokkur slík hafa vakið athygli á síðustu árum. Til dæmis skipun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur í embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. 

Snorri segir þá skipun ekki vera sérstakt umkvörtunarefni í bréfinu til umboðsmanns „En auðvitað vakti sú skipun á sínum tíma athygli fjölmiðla og var umfjöllunarefni þar þannig það má vera að hann taki það til skoðunar í þessu líka. Ég veit það ekki,“ segir Snorri.

Að mati Snorra er þessi vandi ekki bundinn við lögregluna heldur sé þetta æ meira áberandi í ríkisrekstrinum almennt. 

„Þetta er eitthvað trend sem er að birtast til að færa ríkisgeirann nær hinum almenna vinnumarkaði þar sem staðreyndir er jú einfaldlega sú að það hvílir engin auglýsingaskylda á einhverju fyrirtæki úti í bæ þegar þeir eru að ráða til sín en þessu er bara öðruvísi farið þegar er verið að sýsla með fjármuni hins opinbera,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×