Kona sem lauk meðferð við brjóstakrabbameini fyrir ári bjóst við innköllun í október. Fyrir jól hafði hún ekki enn fengið símtal og hafði því samband við krabbameinsdeildina í lok desember. Þá fékk hún þau svör að hún þyrfti að bíða í allt að þrjá mánuði í viðbót eftir tíma hjá lækni. Í samtali við Fréttablaðið segist konan að lokum hafa „grenjað út“ viðtal enda hafi hún verið full kvíða vegna óvissunnar og biðarinnar.
Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina, staðfestir að mikið álag sé á deildinni enda sé undirmannað. Hann er sjálfur í krabbameinsmeðferð og fór í veikindaleyfi í sumar. Þar með hafi krabbameinslæknum fækkað um helming frá árinu 2008.
„Krabbameinslæknum hefur farið fækkandi undanfarin ár vegna ýmissa ástæðna. Það er mikið álag og þeim bjóðast betri laun og vinnuaðstæður erlendis,“ segir Gunnar.

Tekist hefur að sinna krabbameinslyfjameðferð með því að leggja meira á krabbameinslæknana og auka þverfaglega teymisvinnu með öðrum heilbrigðisstéttum. „En það er ekkert launungarmál að álag á lækna deildarinnar er komið vel yfir þolmörk.“
Gunnar segir ráðningar vera í forgangi en því miður hafi reynst erfiðlega að fullmanna deildina. Auglýst hafi verið eftir starfsfólki og leitað út fyrir landsteinana. Hann segist þó vera bjartsýnn á að það náist að finna lausn á málunum.
„Hin þverfaglega teymisvinna mun skila miklu með frekari reynslu og álagið mun minnka talsvert þegar ég get farið að sinna sjúklingum að fullu aftur. Við erum líka bjartsýn á að nýir læknar muni ráða sig við deildina,“ segir hann.