Innlent

70 milljónir til að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu

Bjarki Ármannsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Vísir/Pjetur
Stefnt er að því að fjölga stöðugildum sálfræðinga í íslenskri heilsugæslu um átta á næsta ári. Stöðugildi sálfræðinga á öllu landinu eru nú fimmtán en þessi aukning er sögð liður í því að efla þjónustu heilsugæslu á landinu og bæta aðgengi að henni.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er samtals gert ráð fyrir að verja tæpum 69 milljónum króna til þess að ráða sálfræðinga til starfa. Fjárframlög til heilbrigðisstofnana Vesturlands, Norðurlands, Austurlands og Suðurlands verða samtals aukin um 34.4 milljónir vegna þessa og aðrar 34.4 milljónir fara til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Einn sálfræðingur ætti því að vera ráðinn á hverja af stofnunum fjórum á landsbyggðinni og fjórir á höfuðborgarsvæðinu. Að því er segir í frétt á vef velferðarráðuneytisins er áætlað að eitt stöðugildi sálfræðings þurfi á hverja níu þúsund íbúa, miðað við breska átakið „Improving Access to Psychological Therapies.“ Það þýðir að þörf sé á samtals 36,6 stöðugildum hér á landi en eftir þessa breytingu verða stöðugildin samt sem áður aðeins 23 á landsvísu.

Í fréttinni er haft eftir Kristjáni Þóri Júlíussyni heilbrigðisráðherra að hann vilji áfram fjölga sálfræðingum til samræmis við þessi viðmið og fjölga þannig um fjórtán stöðugildi til viðbótar árin 2017 og 2018.

„Það hefur lengi verið vitað að umtalsverður hluti fólks sem leitar til heilsugæslunnar glímir við vandamál þar sem menntun og þekking sálfræðinga gæti komið að góðum notum, eins og kvíða, þunglyndi, svefnvandamál og fleira mætti telja,“ er haft eftir Kristjáni. „Með þessu móti eflum við heilsugæsluna og sníðum þjónustu hennar betur að þörfum notenda. Á því leikur enginn vafi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×