Innlent

Slæmt að sjúklingar þurfi að leita réttar síns fyrir dómstólum

þóra kristín ásgeirsdóttir skrifar
"Mér finnst mjög erfitt fyrir okkur á Landspítalanum að fagna því að einstaklingur þurfi að fara í mál til þess að sækja þann rétt sem hann telur sig hafa," segir María.
"Mér finnst mjög erfitt fyrir okkur á Landspítalanum að fagna því að einstaklingur þurfi að fara í mál til þess að sækja þann rétt sem hann telur sig hafa," segir María. vísir/gva
María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, segir slæmt að sjúklingar þurfi að leita réttar síns fyrir dómstólum en þó sé það jákvætt ef það verður til þess að málið leysist. Fanney Björk Ásbjörnsdóttir fær flýtimeðferð en hún stefndi ríkinu sem synjar henni um nauðsynlega lyfjameðferð við lifrarbólgu C.

Lyfjagreiðslunefnd synjaði Fanneyju um lyfin þar sem að kostnaðurinn rúmaðist ekki innan fjárlaga. Hjördís Birna Hjartardóttir lögfræðingur krefst þess fyrir hönd Fanneyjar að synjunin verði felld úr gildi. Ekki sé hægt að neita fólki um grundvallarmannréttindi svo sem nauðsynlega læknismeðferð með því að vísa í fjárhag ríkisins. María Heimisdóttir segir að ekki sé um það deilt að það þurfi að meðhöndla þessa sjúklinga. Til þess þurfi að finna fjármuni og það sé á forræði stjórnmálamanna.

„Frá sjónarhóli Landspítalans þá er flöskuhálsinn einfaldlega sá að þær fjárheimildir sem sjúkratryggingar Íslands hafa til þess að greiða fyrir þessi sérstöku, dýru lyf. Þær fjárveitingar eru í rauninni þegar ráðstafað í önnur lyf og þetta lyf í rauninni rúmast ekki innan þeirra fjárveitinga sem sjúkratryggingar hafa í ár. Það er ekki vegna þess að menn átti sig ekki á því að hér eru mikilvæga meðferð að ræða en fjárveitingar stofnunarinnar hafa ekki dekkað þetta,“ segir hún.

María segir að í einstaka tilfellum kunni að vera nauðsynlegt að fara með slík mál fyrir dómstóla en hún voni að málið leysist sem fyrst og þá með öðrum hætti.

„Mér finnst mjög erfitt fyrir okkur á Landspítalanum að fagna því að einstaklingur þurfi að fara í mál til þess að sækja þann rétt sem hann telur sig hafa. En ef það verður til þess að málið leysist og þessi mál skýrist í framhaldinu þá er það í sjálfu sér ágætt en við hefðum gjarnan vilja hafa frekari aðgang að fjármunum í þennan málaflokk en það er auðvitað þannig að það verður að forgangsraða.“


Tengdar fréttir

Fær ekki nauðsynleg lyf til að ná bata af lifrarbólgu C

Fanney Björk smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf eftir barnsburð árið 1983 en greindist ekki fyrr en árið 2010. Hún hefur fengið neitun um að fá lyf sem myndu líklega hjálpa henni að ná bata af sjúkdóminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×