Innlent

Fara fram á vandaðri undirbúning við gerð samræmdra könnunarprófa

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Almennt er vandséð hvernig nota má einkunnir samræmdra könnunarprófa til samanburðar á milli skóla en hvað enskuprófið í ár er útilokað að reyna slíkt.“
"Almennt er vandséð hvernig nota má einkunnir samræmdra könnunarprófa til samanburðar á milli skóla en hvað enskuprófið í ár er útilokað að reyna slíkt.“ vísir/vilhelm
Grundaskóli segir framkvæmd Menntamálastofnunar við gerð samræmdra könnunarprófa í ensku hafa mistekist. Stofnunin valdi í tilviljunarkenndu úrtaki tuttugu nemendur úr skólanum til að taka umrætt próf en hvorki tókst að opna prófið né komast inn á kerfi Menntamálastofnunar, sem á endanum hrundi vegna álags. Skólinn fer fram á vandaðri undirbúning við gerð slíkra prófa.

Á vef Grundaskóla segir að nemendur hafi ekki getað tekið prófið á réttum tíma, og því fluttir til og látnir taka hefðbundið skriflegt próf. Veruleg röskun hafi orðið af þessum sökum, en að próftíminn hafi verið lengdur til samræmis.

„Grundaskóli vill gjarnan taka þátt í að þróa námsmat í samstarfi við aðila utan skólans, svo sem ráðuneyti menntamála og Menntamálastofnun. Við verðum þó að gera kröfu um vandaðri undirbúning en hér var raunin,“ segir á vef skólans.

Mikil umræða hefur verið um einkunnagjöf í grunnskólum og stefnir Menntamálastofnun að því að bjóða nýtt hæfnipróf næsta vor þannig að þeir framhaldsskólar sem það kjósa geti notað það við inngöngu. Þá er stofnunin þessa dagana að þróa rafrænt prófskírteini fyrir lok grunnskóla fyrir tíu greinarsvið þeirra. Þessi rafrænu prófskírteini eiga að veita fyllri upplýsingar um námsstöðu nemenda.

„Almennt er vandséð hvernig nota má einkunnir samræmdra könnunarprófa til samanburðar á milli skóla en hvað enskuprófið í ár er útilokað að reyna slíkt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×