Innlent

Dæmi um að menn búi í Gistiskýlinu í áratugi

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Fólki hefur verið vísað burt frá Gistiskýlinu undanfarnar vikur vegna plássleysis. Forstöðumaðurinn segir vandann meðal annars liggja í því að margir nýti sér neyðarathvarfið sem búsetuúrræði og finna þurfi betri meðferðarúrræði fyrir pólskumælandi menn sem eru stór hópur í skýlinu.

„Það ástand hefur komið og verið núna í vor að það hefur fyllst hjá okkur hvað eftir annað og við höfum þurft að vísa mönnum frá sem er náttúrulega mjög bagalegt því þessir menn hafa ekki í mörg úrræði að vernda,“ segir Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins. 

Pláss er fyrir 29 manns í Gistiskýlinu með því að bæta aukadýnum við en undanfarið hefur þurft að vísa frá á nánast hverju einasta kvöldi einum og upp í sex manns.

Hann segir borgina bjóða upp á góða þjónustu fyrir þennan hóp en vandinn sé líka tilkominn vegna þess að ýmsir nýti sér Gistiskýlið sem búsetuúrræði ekki neyðarathvarf. Dæmi eru um að menn hafi búið í skýlinu í áratugi.  

„Það er að myndast svona tappar, eldri einstaklingar sem hafa verið að nýta sér Gistiskýlið í Þingholtsstræti og svo hérna sem líta á þetta sem heimili sitt, kannski eðlilega þeir hafa ekki í önnur hús að vernda. En þeir loka dálítið fyrir að við getum tekið nýja inn. Og síðan er hér hópur Pólverja sem hefur ekki í nein hús að vernda.”

Sveinn segir mikilvægt að koma upp betri meðferðarúrræðum til þess að hjálpa þessum hóp. „Menn voru hérna í vinnu, komu hingað til að vinna, missa svo vinnuna, og í framhaldinu þá verða þeir Bakkusi að bráð. Það er kannski voðalega lítið um það að það sé verið að skoða þeirra mál sérstaklega. Það er eitthvað sem við erum að skoða núna og verður gert. En þetta er mjög bagalegt því þessir einstaklingar komast ekki með góðu móti í meðferð. Þeir tala bara pólsku, litla ensku og enga íslensku. Þannig að þetta er svona tappi sem við erum að glíma við um þessar mundir.” 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×