Innlent

Hætt við hækkaðan innritunaraldur í leiksskóla Hafnarfjarðar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Hafnarfirði.
Úr Hafnarfirði. vísir/gva
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í dag í umboði bæjarstjórnar tillögur fræðsluráðs frá 1. júní um lækkun innritunaraldurs barna í leikskóla og um hækkun á mótframlagi til foreldra barna hjá dagforeldrum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórn.

Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.
Stefnt er að því að á kjörtímabilinu verði börn 18 mánaða á því ári sem þau innritast í leikskóla í stað tveggja ára eins og verið hefur.

Niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldri hækka úr 40.000 kr. í 50.000 kr á mánuði og til viðbótar kemur mótframlag við 18 mánaða aldur barns þar til það fær leikskólavist.

Einnig var samþykkt að hefja undirbúning að tilraunaverkefni um gjaldfrjálsan leikskóla og verða 1-2 leikskólar fengnir til að taka þátt í því. Reynsla þeirra af verkefninu verður síðan höfð til hliðsjónar þegar ákveðið verður um slíkt skipulag til framtíðar.

„Með þessu er verið að taka fyrsta formlega skrefið í átt að lækkun innritunaraldurs barna á leikskóla bæjarins. Einnig er verið að minnka útgjöld barnafjölskyldna og gera þannig sveitarfélagið samanburðarhæfara í þeim efnum við önnur sveitarfélög, eins og meirihlutinn vill leggja áherslu á,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs.

Minnihlutinn: Ekki verið að lækka innritunaraldu

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs vilja koma því á framfæri að ekki sé rétt af hálfu meirihlutans að lækkun á innritunaraldur leikskólabarna hafi verið samþykkt. Hið rétta sé að dregin hafi verið til baka fyrri ákvörðun meirihluta Bjartar framtíðar og Sjálfstæðisflokks um að hækka innritunaraldur leikskólabarna en tillaga þess efnis var samþykkt í desember síðastliðnum.

Minnihlutinn vill einnig koma á framfæri að á fundinum var jafnframt tekin fyrir tillaga fulltrúa meirihlutans um að hefja innleiðingu tilraunaverkefnis um svokallaðan „sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla“. Töluvert var fjallað um tillöguna fyrst þegar hún var kynnt af hálfu meirihlutans sl. vor en litlar sem engar útskýringar fylgdu henni þá sem gátu skýrt út hvernig framkvæmd hennar ætti að vera háttað.

Á fundi bæjarráðs í dag kom fram að ætlunin sé að foreldrar þeirra barna sem hafa börn sín í 6 klukkustundir eða skemur hvern dag greiði engin leikskólagjöld en gjöld annarra foreldra verði óbreytt. Það þýðir að gjöld vegna þeirra barna sem eru 7-8 klukkustundir verði óbreytt frá því sem nú er. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×