Innlent

Hafrannsóknastofnun sér hvali í loðnuáti í þúsunda vís

Svavar Hávarðsson skrifar
Staðfestur hefur verið grunur um mikinn fjölda stórhvala við Ísland á haustin.
Staðfestur hefur verið grunur um mikinn fjölda stórhvala við Ísland á haustin. vísir/Vilhelm
Fyrsta tilraun Hafrannsóknastofnunar til að fá mat á fjölda hvala á loðnumiðum hér við land að haustlagi sýndi mikinn fjölda hvala á loðnumiðum á þessum árstíma. Þar sem loðna fannst sást að jafnaði einnig til hvala, aðallega hnúfubaks og langreyða, og er metinn fjöldi þeirra ríflega 12.000 dýr á leitarsvæðinu.

Hvalatalningar fara yfirleitt fram að sumarlagi, þegar talið er að fjöldinn sé mestur á norðlægum fæðuslóðum eins og hér við land, en auk þess eru talningar utan þess tíma erfiðar vegna veðurs og birtuskilyrða. Lengi hefur verið vitað af talsverðum fjölda hnúfubaka hér við land að vetrarlagi og að þeir virðast fylgja loðnugöngum, en raunverulegur fjöldi þeirra hefur hingað til verið óþekktur. Þá sýna niðurstöðurnar einnig umtalsverðan fjölda langreyða á loðnumiðum, en að sumarlagi lifir sú tegund að mestu á ljósátu hér við land.

Ekki var gerð tilraun til að meta nákvæmni matsins, en þó ljóst að nákvæmnin er minni en í hefðbundnum talningum. Líklegra verður að teljast að um vanmat sé að ræða en ofmat, þar sem ekkert náðist að telja á öllu svæðinu vegna veðurs, en víða var talsverð loðna, og ekki tókst að greina alla stórhvali til tegundar. Þá er vitað að töluvert af hnúfubak heldur sig hér við land á sama tíma utan loðnusvæðisins.

Leiðangur Hafrannsóknastofnunar var farinn á tímabilinu 16. september til 4. október, en mikið sást einnig af hval í loðnuleiðangri 17. til 29. nóvember en þá fór ekki samhliða fram könnun á þéttleika hvala. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×