Innlent

Fangar á Akureyri vilja frekar sitja inni

Sveinn Arnarsson skrifar
Fangar á Akureyri hafa frekar viljað vera innan veggja fangelsisins þar sem þeir geta hitt fjöskyldu tvisvar í viku en fara á áfangaheimili í Reykjavík fjarri fjölskyldumeðlimum.
Fangar á Akureyri hafa frekar viljað vera innan veggja fangelsisins þar sem þeir geta hitt fjöskyldu tvisvar í viku en fara á áfangaheimili í Reykjavík fjarri fjölskyldumeðlimum.
Dæmi eru um að fangar sem afplána dóma sína á Akureyri hafni því að ljúka afplánun utan fangelsis þar sem einungis er hægt að ljúka henni í Reykjavík. Fangar sem eigi fjölskyldur á Norðurlandi vilji frekar ljúka afplánun innan veggja fangelsisins. Formaður Afstöðu, félags fanga, segir mikilvægt að koma á úrræði á Norðurlandi svo fangar geti afplánað lok dóms utan veggja fangelsisins.

Páll Winkel
Aðeins eitt áfangaheimili er starfrækt á landinu, áfangaheimili Verndar í Reykjavík, þar sem fangar geta lokið afplánun. Fangar af landsbyggðunum þurfa því að flytjast frá fjölskyldum sínum og vera í vinnu eða námi á höfuðborgarsvæðinu, fjarri fjölskyldum sínum. 

Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga getur fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis, stundi hann vinnu eða nám sem stofnunin hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný. Úrræðið er mun ódýrara fyrir hið opinbera og því gæti fylgt því sparnaður að opna úrræði fyrir fanga á Norðurlandi. 

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir stofnunina ekki hafa skoðað það að opna áfangaheimili fyrir norðan því fjárskortur stofnunarinnar sé mikill. „Sem stendur er Fangelsismálastofnun að einbeita sér að því að halda sjó í rekstri og algerlega útilokað að fara í fjölgun úrræða eða vistunarstaða nema með auknu fjármagni,“ segir Páll.

Guðmundur ingi Þórodsson


„Það eina sem liggur fyrir er að á Akureyri er rekið 10 manna fangelsi og þar starfar frábært starfsfólk sem hefur staðið sig frábærlega í því að taka við kvenföngum til vistunar en þeir fangar voru sendir norður vegna lokunar á kvennafangelsinu í Kópavogi vegna niðurskurðar í fjárveitingum.“

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir það vera mikilvægt að koma á áfangaheimili á Norðurlandi. „Það er hagur allra að það náist í gegn. Mýmörg dæmi eru um það að fangar hafni því að fara á áfangaheimili því þá eru þeir sendir í burtu. Á meðan við höfum ekki nægt rými til að fangar geti hafið afplánun fljótt yrði það akkur fyrir fangelsismálastofnun að geta komið mönnum á áfangaheimili til að taka inn nýja fanga,“ segir Guðmundur Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×