Innlent

Neysla Omega-3 gæti hindrað geðrof

Ingvar Haraldsson skrifar
Mikið magn Omega-3 fitusýra er í lýsi. Óttar Guðmundsson geðlæknir segist ráðleggja öllum að taka lýsi.
Mikið magn Omega-3 fitusýra er í lýsi. Óttar Guðmundsson geðlæknir segist ráðleggja öllum að taka lýsi.
vísindi Neysla Omega-3 fitusýra gæti hindrað geðrof og hægt á þróun geðklofa og annarra geðsjúkdóma samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birt var á þriðjudag.

Ungmenni í áhættuhóp á að þróa með sér geðklofa voru mun ólíklegri til að greinast með sjúkdóminn allt að sjö árum eftir að hafa tekið Omega-3 fitusýrur í tólf vikur. Þetta kemur fram á heilsufréttavefnum MedicalXPress þar sem vitnað er til rannsóknar vísindamanna við Háskólann í Melbourne.

Niðurstöðurnar koma Óttari Guðmundssyni geðlækni ekki á óvart. „Ég er búinn að trúa á undramátt Omega-3 í áratugi,“ segir Óttar. „Ég trúi því að Omega-3 sé gott við öllu: Geðhvörfum, taugaveiklun, getuleysi, bara hverju sem er. Þess vegna drekk ég eina flösku af lýsi á viku,“ bætir Óttar við.

Óttar segist hafa séð inntöku lýsis hjálpa fólki. „Og sérstaklega sjálfum mér, ég finn bara hvað ég er allur annar maður þegar ég er með lýsi,“ segir hann.

óttar guðmundsson
Á MedicalXPress er bent á að vísindamenn hafi lengi vitað að einstaklingar með geðklofa mælist með lítið magn fjölómettaðra fitusýra á borð við Omega-3 og Omega-6 í frumuhimnum. Áhrif Omega-3 á geðklofa séu þó enn óþekkt. 

Samkvæmt fyrri rannsókn sama hóps, sem gefin var út fyrir tæpum áratug, var ályktað að neysla fitusýra gæti seinkað fyrstu einkennum geðrofs hjá áhættuhópum um allt að eitt ár. 

Í rannsókninni sem kom út í vikunni segir að sjö árum síðar hafi einungis tíu prósent þeirra sem tóku Omega-3 fitusýrur þróað með sér geðrof samanborið við fjörutíu prósent þeirra sem voru í samanburðarhóp sem fékk lyfleysu.

Paul Amminger, sem stýrði rannsókninni, vill þó ekki ganga svo langt að fullyrða að það ætti að ráðleggja öllum þeim sem séu í áhættuhóp að taka inn Omega-3 fitusýrur til að draga úr líkum á geðsjúkdómum. Til þess þurfi fleiri rannsóknir. Úrtakið hafi verið fremur lítið, en 81 einstaklingur tók þátt í rannsókninni. Þó séu nokkrar sambærilegar rannsóknir í bígerð. Hægt verði að draga frekari ályktanir þegar niðurstöður þeirra liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×