Lífið

Mest lög sem fjalla um ástina

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Katrín Helga spilar á tónleikum á Húrra á miðvikudagskvöld ásamt Kríu Brekkan og Just Another Snake Cult.
Katrín Helga spilar á tónleikum á Húrra á miðvikudagskvöld ásamt Kríu Brekkan og Just Another Snake Cult. Mynd/SauliusBaradinskas
„Þetta er miklu lágstemmdara, meira melódískt en ekki rapp. Að vísu leynast nokkrir rappkaflar í sumum lögunum,“ segir Katrín Helga Andrésdóttir um tónlistina sem hún flytur á miðvikudaginn með hljómsveitinni Katrín Helga og Krabbarnir.

Tónlistin er því talsvert ólík því sem Katrín fæst við ásamt Reykjavíkurdætrum og Hljómsveitt sem hún er einnig meðlimur í. „Þetta er í rauninni miklu nær mér og það sem ég hef verið að stefna að miklu lengur,“ segir hún. „Þetta er meira sungið og mest lög sem fjalla um ástina og svona það sem ég hef viljað kalla misheppnuð samskipti við hitt kynið.“

Nafn hljómsveitarinnar má rekja til þess að allir meðlimir hennar eru í stjörnumerkinu Krabbanum. „Þetta eru lög eftir mig en Hjalti Jón Sverrisson og Sindri Bergsson spila með mér.“

Katrín Helga og Krabbarnir komu fram í fyrsta skipti í október þrátt fyrir að Katrín hafi samið tónlist frá sex ára aldri. „Ég hef kannski ekki þorað hingað til. Mér líður svona eins og vera rosalega skotin í strák en þora ekki að gera neitt í því af því maður er svo hræddur við að fá höfnun.“ 

Ásamt Katrínu Helgu og Kröbbunum koma fram Kría Brekkan og Just Another Snake Cult. Tónleikarnir eru á Húrra og hefjast klukkan átta annað kvöld.

Hér má hlusta á lagið Apollo með Katrínu og Kröbbunum:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×