Innlent

Furðar sig á yfirlýsingu forsætisráðherra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata furðar sig á yfirlýsingu forsætisráðherra um að ekki sé heppilegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum á næsta ári. Hún óttast að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að þjóðin fái að fella sinn dóm í málinu. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var spurður í þættinum Eyjan á Stöð 2 í gær út í þann möguleika að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána samhliða forsetakosningum á næsta ári.

„Ég hef haldið þeim möguleika opnum að það verði kosið um þetta á næsta ári ef að menn næðu saman um niðurstöðu. En ég er sammála forsetanum að ef að um væri að ræða umdeildar breytingar þar sem að menn væru að takast á um stjórnarskrána þá færi mjög illa á því að þau átök færu fram samhliða átökum um kjör forseta,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata furðar sig á þessari yfirlýsingu.

„Mér finnst þessi yfirlýsing einkennileg og nánast eins og bergmál af ræðu forseta við þingsetningu fyrr í þessum mánuði. Mér finnst líka furðulegt að koma fram með þá staðhæfingu að það sé ekki hægt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eða sérstök ákvæði nema það sé einhugur um málið,“ segir Birgitta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×