Innlent

Léleg berjaspretta á Norðurlandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Svo gæti farið að margir unnendur íslenskra bláberja fái lítið af berjum út á skyrið sitt þetta haustið.
Svo gæti farið að margir unnendur íslenskra bláberja fái lítið af berjum út á skyrið sitt þetta haustið.
Berjaspretta á Norðurlandi er lítil eftir ótíð í vor. Kaldur apríl- og maímánuður með snjókomu gera það að verkum að ber vaxa ekki á stórum svæðum á öllu Norðurlandi. Ótíðin og lítil berjaspretta gæti haft áhrif á afkomu fuglategunda.

Ólafur Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur verið í vettvangsferðum í Þingeyjarsýslum og tekið eftir því að lítið sem ekkert finnst af berjum og berjaspretta er með eindæmum léleg víðast hvar á Norðurlandi. „Sætukopparnir náðu ekki að blómgast í ár vegna kulda í vor og því fór sem fór. Berin eru um þriðjungshluti fæðu rjúpu og gæsa og því þurfa þessir fuglar að reiða sig á aðra fæðu í haust. Þessar fuglategundir eru nú þannig að þær geta étið ýmsar aðrar fæðutegundir sem þær munu nýta sér líklega. Hvað varðar gæsina þá gæti það farið svo að hún verði fljótari að færa sig yfir á vetrarstöðvar en haustið mun líklega skera úr um það hvort svo verði,“ segir Ólafur.



Ólafur Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og áhugamaður um berjasprettu, segir ástandið á íslensku berjalyngi ekki gott. „Það horfir í mun lakari sprettu núna, bæði hvað hún kemur seint og eins verður hún um allt land miklu lakari en oftast áður. Það er alveg ljóst,“ segir Sveinn Rúnar. „Hins vegar gerir maður sér vonir um að hún verði skárri á Suðausturlandi vegna þess að það var jú betra sumar þar. Þetta mun ráðast af því hvernig næstu vikur verða fram í september. Vonandi að það verði frostlaust og gefi sólardaga, þá gæti þetta blessast.“

Vorið var ekki aðeins erfitt fyrir berin heldur hafði ótíðin mikil áhrif á varp fugla. Ólafur hefur fylgst með varpi fálka mjög lengi og telur þetta vor hafa verið nokkuð erfitt. „Varp fálkastofnsins á Íslandi árið 1979 og 1983 var afskaplega lélegt. Þó þetta árið nái nú ekki þeirri lægð getum við með nokkurri vissu sagt að þetta sumar sker sig úr og er afbrigðilegt miðað við það sem við höfum séð síðustu áratugi. Eins hafa fálkar misst undan sér og einnig sleppt varpi þetta sumarið,“ segir Ólafur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×