Innlent

Yfir hundrað óvæntar sektir á Kings of Leon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumaður að sekta í Laugardalnum.
Lögreglumaður að sekta í Laugardalnum.
„Fólkl leggur út um allt en samt eru 1800 stæði þarna,“ segir Kolbrún Jónatansdóttir framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs. Stöðuverðir sjóðsins og lögreglumenn höfðu nóg að gera í Laugardalnum í gær á meðan tónleikar bandarísku rokksveitarinnar Kings of Leon fóru fram.

Kolbrún segir að sektirnar hafi verið rúmlega hundrað og því ljóst að hinir sömu verða tíu þúsund krónum fátækari fyrir vikið. Ódýrustu miðarnir á tónleikana kostuðu einmitt tíu þúsund krónur. Þó sleppur fólk með 8900 krónur greiði það innan þriggja virkra daga.

Þrír lögreglumenn og tveir stöðuverðir voru á vappinu milli bíla í gær. Ekki var um samræmdar aðgerðir að ræða segir Kolbrún en til þeirra hefur stundum verið gripið í gengum tíðina við stærri viðburði.

Kom mjög á óvart 

Sektaraðgerðir lögreglu í Laugardalnum í kringum íþróttaviðburði hafa verið töluvert í fréttum undanfarin misseri. Mætti ætla að margir væru farnir að átta sig á því að líkurnar á sekt, leggi maður ólöglega á slíkum viðburðum, eru töluverðar.

„Á síðasta landsleik var sami fjöldi af lögreglumönnum og stöðuvörðum en það var ekkert að gera,“ segir Kolbrún. Það hafi því komið mjög á óvart hve margir lögðu illa í gær.

„Það er ótrúlegur fjöldi af bílastæðum en samt byrjar fólk að raða sér út á tún og upp á gangstéttar.“

Vika í Menningarnótt

Hún minnir á að stæði sé að finna allt frá Laugardalslaug yfir að fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Það var einmitt þar sem flestir voru sektaðir. Samanlagt séu um 1800 bílastæði í Laugardalnum. Við bætast fjöldi bílastæða á Suðurlandsbraut.

Menningarnótt verður haldin hátíðleg aðra helgi með Reykjavíkurmaraþoni og reikna má með miklum fjölda í bænum. Kolbrún hvetur fólk til að leggja löglega fari það á bíl sínum í miðbæinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×