Fótbolti

Fótboltabullur réðust að króatíska landsliðsþjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niko Kovac.
Niko Kovac. Vísir/Getty
Niko Kovac, þjálfari króatíska fótboltalandsliðsins, var í hópi frá króatíska knattspyrnusambandinu sem varð í gær fyrir árás frá fótboltabullum á leið sinni til fundar í Split.

Niko Kovac stýrði króatíska landsliðinu til sigurs í umspilsleikjum á móti Íslandi fyrir einu og hálfu ári síðan þá nýtekinn við landsliðsþjálfarastöðunni. Liðið gerði ekki mikið á HM en hefur byrjað undankeppni EM vel.

Tíu fótboltabullur merktar fótboltafélaginu Hajduk Split réðust að hópnum þar sem hann stoppaði á leið sinni til borgarinnar. Fyrst létu þeir fúkyrðunum rigna yfir hópinn en svo réðust þeir á þá. Niko Kovac sat inn í bíl þegar atvikið gerðist og enginn meiddist alvarlega í þessari árás.

Stuðningsmenn Hajduk Split hafa verið mjög ósáttir síðan að þeim var meinaður aðgangur að útileik liðsins á dögunum en það er ekki ljóst hvort þessi árás tengist því beint.

Króatíska landsliðið mun spila við Ítalíu í Split í júní en þarf að gera það fyrir framan tóman leikvang þar sem UEFA er að refsa sambandinu fyrir kynþáttaníð króatíska áhorfenda á leik gegn Noregi í lok mars.

Árásin í gær mun ekki hafa nein áhrif á þann leik og í yfirlýsingu frá sambandinu þá kom einnig fram að króatíska sambandið líti ekki svo á að fótboltabullurnar hafi komið fram fyrir hönd Hajduk Split, stuðningsmannasveit félagsins (Torcida) eða Split.

Króatíska landsliðið er í efsta sætið í sínum riðli í undankeppni EM 2016 en liðið hefur náð í 13 stig af 15 mögulegum í fyrstu fimm leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×