Enski boltinn

Dramatískur sigur City | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bony kemur City-mönnum yfir með skalla.
Bony kemur City-mönnum yfir með skalla. Vísir/Getty
Varamaðurinn Kelechi Iheanacho tryggði Manchester City dramatískan sigur á Swansea City á Etihad vellinum í dag. Lokatölur 2-1.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Swansea sem spilaði vel í leiknum og hefði átt skilið að fá annað stigið.

Wilfried Bony kom City gegn sínum gömlu félögum á 26. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Jesús Navas.

Staðan var 1-0 í hálfleik en gestirnir frá Wales voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik.

Gylfi átti fínan leik og var mjög ógnandi. Íslenski landsliðsmaðurinn var nokkrum sinnum nálægt því að skora en Joe Hart reyndist Gylfa erfiður ljár í þúfu og varði fjórum sinnum vel frá honum.

Gylfi tókst að koma boltanum í netið á 85. mínútu en markið var dæmt af vegna brots Bafetimbi Gomis á Hart.

Fimm mínútum síðar skoraði Gomis með föstu skoti eftir stungusendingu Federico Fernandez.

En Iheanacho reyndist hetja City þegar skot Yaya Touré fór af honum og í netið á annarri mínútu uppbótartíma.

Með sigrinum komst City á topp úrvalsdeildarinnar en liðið er með 32 stig, jafn mörg og Leicester City en betri markatölu. Swansea er hins vegar í 15. sæti með aðeins 14 stig.

Man City 1-0 Swansea Man City 1-1 Swansea Man City 2-1 Swansea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×