Innlent

Hvetja fólk til að fá far hjá öðrum til að létta á umferð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Oftast nær eru menn einir í bíl sem skapar á höfuðborgarsvæðinu að minnsta kosti umferðarvandræði á morgnanna og kvöldin.“
"Oftast nær eru menn einir í bíl sem skapar á höfuðborgarsvæðinu að minnsta kosti umferðarvandræði á morgnanna og kvöldin.“ vísir/vilhelm
Samgöngufélagið hefur tekið í notkun nýjan vef sem miðlar upplýsingum um bílfar og er ætlaður þeim sem óska eftir eða vilja bjóða far með bíl. Vefurinn er opnaður í tilefni evrópsku samgönguvikunnar, og unnið er að því að fá þennan ferðamáta viðurkenndan sem hluta almenningssamgangna.

„Við vitum hvernig notkun á bílum er háttað á Íslandi. Oftast nær eru menn einir í bíl sem skapar á höfuðborgarsvæðinu að minnsta kosti umferðarvandræði á morgnanna og kvöldin. Þetta er mikil sóun á bæði vegakerfi og bílaflotanum sjálfum og bílastæðum ekki síst. Og ef menn fengjust aðeins til að nýta sér þetta þá gæti þetta létt á umferð og pyngju margra,“ segir Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins.

Vefurinn var opnaður síðastliðinn miðvikudag. Um getur verið að ræða hvort heldur sem ósk eða boð um stakar ferðir, til dæmis milli landshluta, eða reglulegar ferðir, til dæmis til eða frá vinnu. Hægt er að nálgast vefinn í gegnum Bílfar.is með því að skrá sig í gegnum Facebook. Jónas segir að vel sé hægt að treysta vefnum, en ef fólk sé í einhverjum vafa eigi það að sleppa því að þiggja far.

Oftast nær einn í hverjum bíl

„Ég tel að það eigi að vera hægt að treysta þessu, þó maður viti auðvitað aldrei. Menn verða að fara varlega og ef þeir eru í minnsta vafa þá ráðlegg ég þeim að láta ógert að þiggja eða bjóða far,“ segir hann.

Hann vill að ferðamáti sem þessi verði viðurkenndur sem hluti almenningssamgangna. „Ég vil meina að þetta eigi að vera það. Að sveitarfélög eða aðrir geti stutt við þetta og vísað á þetta og óskað eftir því að fólk notist við þetta.“

Síðuna má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×