Innlent

Biður fólk um að hjálpa sér við að komast úr landi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hinn 25 ára Jüri Burmeister, sem staddur er hér á landi, segist elska Ísland en vonast til að komast frá landi sem fyrst svo hann nái markmiði sínu.
Hinn 25 ára Jüri Burmeister, sem staddur er hér á landi, segist elska Ísland en vonast til að komast frá landi sem fyrst svo hann nái markmiði sínu. vísir/valli
Ferðalangurinn Jüri Burmeister hefur einsett sér það markmið að ferðast um allan heim á einungis einu ári, án nokkurra fjármuna. Hann segist hafa verið orðinn þreyttur á veraldlegum gæðum, því í raun séu það hin huglægu sem skipti öllu máli.

„Ég ætla að ferðast hringinn í kringum plánetuna á 365 dögum, í mesta lagi, en vonandi verð ég á undan sólinni," segir Jüri, sem er 25 ára Eisti.

Gott að geta slegið á þráðinn til mömmu

Jüri lagði upp í ferðalagið hinn 19. mars síðastliðinn, eða fyrir 109 dögum síðan, en hann segist lengi hafa dreymt um að fá að upplifa heiminn allan. „Mig langaði til að kynnast heiminum eins og hann í raun og veru er. Náttúrunni, fólkinu; systrum mínum og bræðrum," segir hann.

„Ég bað mömmu mína, skömmu fyrir 25 ára afmælið mitt, að gefa mér bakpoka í afmælisgjöf og nýtti þær fimmtán evrur sem ég átti til að leggja inneign inn á símann minn, svo ég gæti hringt í mömmu í ferðalaginu," segir hann. Leið hans lá í kjölfarið út á höfn, en Jüri hefur ferðast hvað mest með fiskibátum. Þegar hefur hann ferðast um Norður-Atlantshafið en hyggst færa út kvíarnar á næstu vikum.

„Mig langaði til að kynnast heiminum eins og hann í raun og veru er. Náttúrunni, fólkinu; systrum mínum og bræðrum," segir hinn hressi Juri Burmeister.vísir/valli
Hann segist hafa fundið fyrir mikilli vinsemd víðast hvar, flestir séu boðnir og búnir til að aðstoða hann í ferðalaginu. „Þegar ég var að ferðast um Afríku og Sahara-eyðimörkina buðust hjón til þess að borga fyrir mig hótelherbergi. Það var mjög vel þegið."

Hundasúrur og fíflar í flest mál

Jüri kom hingað til lands fyrir átta dögum og segist elska Ísland. Hann gistir í tjaldi og lifir á náttúrunni, en hans uppáhald hér á landi eru hundasúrur og fíflar.

„Ég finn mér alls kyns góðgæti í náttúrunni og bý mér til salöt. Svo skilst mér að ég geti fundið egg úti í náttúrunni, en hef ekki orðið var við þau enn. Ef ég sé þau þá mun ég líklega sjóða mér eitt. En vissulega er það misjafnt hvað það er sem ég get borðað, sem fer alfarið eftir því hvar ég er staddur í heiminum," segir hann glaður í bragði.

Íslendingar vingjarnlegir

„Ísland er frábært og ég mun alveg örugglega koma hingað aftur. Ég hef gengið mikið, til dæmis Eyjafjallajökul, og gekk mest í 26 klukkustundir samfleytt. En þá var ég líka orðinn mjög þreyttur, blautur og kaldur."

Þrátt fyrir að hafa fundið fyrir mikilli vinsemd hér á landi þá hefur það reynst honum erfitt að komast á næsta áfangastað, Kanada, og biður því sjómenn eða aðra sem eiga leið vestur að leggja sér lið.

„Verð ég ekki að vera á undan sólinni?" segir hann að lokum, en þeir sem vilja aðstoða ferðalanginn unga geta sent honum skilaboð á Facebook, eða tölvupóst á netfangið juriburmeister@gmail.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×