Fótbolti

Göteborg tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni | Arnór Smára á skotskónum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hjálmar Jónsson, leikmaður IFK Göteborg.
Hjálmar Jónsson, leikmaður IFK Göteborg. Vísir/Getty
Hjálmar Jónsson og félagar í IFK Göteborg töpuðu tveimur mikilvægum stigum á heimavelli í toppbaráttu sænsku úrvalsdeildarinnar í dag í 1-1 jafntefli gegn Halmstad sem er fallið úr deildinni.

Hjálmar var í byrjunarliði Göteborg og lék allar 90. mínútur leiksins en gestirnir komust óvænt yfir með marki James Keene átta mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Göteborg náði að jafna metin tuttugu mínútum fyrir leikslok með marki frá Haitam Aleesami en lengra komust þeir ekki og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Jafnteflið þýðir að Göteborg er með eins stiga forskot á Norrköping sem á leik inni gegn Hacken seinna í dag.

Þá kom Arnór Smárason Helsingborg yfir í 2-1 sigri á Elfsborg á heimavelli í dag en þetta var fyrsti sigur Helsingborg í sænsku deildinni í tæpa tvo mánuði.

Helsingborg skaust upp í 8. sæti með sigrinum þegar þrjár umferðir eru eftir.

Arnór byrjaði leikinn á miðjunni hjá Helsingborg og kom heimamönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks en stuttu áður hafði Viktor Claesson, leikmaður Elfsborg, klúðrað vítaspyrnu.

Claesson bætti upp fyrir mistök sín í seinni hálfleik er hann jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok og leit allt út fyrir að liðin myndu skilja jöfn þegar Robin Simovic skoraði sigurmark Helsingborg á 92. mínútu og tryggði Helsingborg stigin þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×