Innlent

Flugvélin fannst í dal inn af Hörgárdal

Atli Ísleifsson og Sveinn Arnarsson skrifa
Flugvélin sem leitað hefur verið að fannst í Barkárdal inn af Hörgárdal á níunda tímanum í kvöld.

Í tilkynningu frá samhæfingarmiðstöð almannavarna segir að vélin hafi fundist á Tröllaskaga á níunda tímanum í kvöld og segir að verið sé að flytja mennina á sjúkrahús.

Samhæfingastöð ríkislögreglustjóra var ræst klukkan 17:06 vegna eins hreyfis vélar sem hafði ekki skilað sér, en í henni voru tveir menn.

Flugvélin fór frá Akureyri klukkan 14:01 og með áætlaða lendingu á Keflavíkurflugvelli klukkan 16:20.

Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar af Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi voru kallaðar út - alls 43 björgunarsveitir. Um klukkan átta voru rúmlega 200 björgunarmenn við leit.

Tilkynning frá samhæfingarmiðstöð almannavarna:

„Frá því síðdegis í dag hefur staðið yfir umfangsmikil leit lögreglu, björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar að lítilli flugvél sem hélt frá Akureyri með tveimur mönnum um klukkan 14 áleiðis til Keflavíkur. Vélin fannst á Tröllaskaga á níunda tímanum í kvöld. Verið er að flytja mennina á sjúkrahús.“

Uppfært 21:44:

Samkvæmt heimildum Vísis tók sjúkraflugvél Mýflugs á loft frá Akureyrarflugvelli um 21:30.

Uppfært 21:57:

Auðunn Kristinsson hjá Landhelgisgæslunni segir að þyrla hafi sótt mennina á slysstað og svo hafi flugvél flutt þá til Reykjavíkur. Auðunn sagðist ekki geta staðfest á þessari stundu að báðir menn væru í vélinni.

Uppfært 23:21:

Björgunarsveitir verða með mannaða vakt þar sem þeir halda Barkárdalnum lokuðum fyrir allri umferð.

Barkárdalur.

Tengdar fréttir

Leit hafin að lítilli flugvél

Samhæfingastöð ríkislögreglustjóra var ræst klukkan 17:06 vegna lítillar flugvélar sem hafði ekki skilað sér. Tveir menn voru í vélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×