Innlent

Dæmdur fyrir að saka lögreglumann um kynferðisleg skilaboð til táninga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um eitt þúsund manns búa á Eskifirði.
Um eitt þúsund manns búa á Eskifirði. Vísir/Pjetur
Emil K. Thorarensen, íbúi á Eskifirði, hefur verið dæmdur fyrir meiðyrði í garð lögreglumanns í sama bæ. Ákært var fyrir sjö ummæli í garð lögreglumannsins. Tveimur þeirra var vísað frá og sýknað vegna fjögurra ummæla þar sem lögreglumaðurinn var sakaður um einelti í garð Emils og sonar hans.

Hins vegar var sakfellt fyrir ummæli sem fólu í sér ásökun um að lögreglumaðurnn hefði sent ungmennum á táningsaldri eftirfarandi kynferðisleg skilaboð:

„Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“

Ummælin lét Emil falla á opinni Fésbókarsíðu sinni í maí 2013 en þau voru fjarlægð af síðunni nokkrum dögum síðar. Lögreglumaðurinn kærði ummælin til lögreglu og ákvað ríkissaksóknari að gefa út ákæru í september 2014. Hélt Emil því fram að um opið bréf til lögreglustjórans á Eskifirði.

Vísaði í vitneskju heimildarmanns frá fyrstu hendi

Í niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands segir að fyrri málsliðurinn feli í sér ásökun um að lögreglumaðurinn hafi sent ungmennum á táningsaldri, 13-19 ára, kynferðisleg skilaboð. Emil neitaði að útskýra hvað hann meinti með spurningamerkjunum en dómurinn segir ummælin vekja, hlutlægt séð í tengslum við fyrri hluta setningarinnar, óhjákvæmilega hugrenningar hvers sem þau les um að átt sé við háttsemi af kynferðislegum toga.

Sjá einnig:Þurfti að útskýra ásakanirnar fyrir tengdó

„Orðin „afslátt gegn“ vekja að auki hugrenningar um misnotkun á stöðu hans sem lögreglumanns. Framsetning ummælanna í heild er ótvírætt á formi staðhæfingar um staðreynd, þótt með orðunum „að sögn“ sé til þess vísað að upplýsingarnar séu ekki frá ákærða sjálfum komnar. Þótt ekki verði fullyrt að í ummælunum felist ásökun um refsiverða háttsemi, er hér um sérlega alvarlega og meiðandi ásökun í garð lögreglumannsins að ræða,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Emil fullyrti að til grundvallar ummælunum væru orð ónafngreinds milliliðs sem hefði þær beint frá viðkomandi þolendum fleiri en einum.

Héraðsdómur Austurlands er á Egilsstöðum..Vísir/Pjetur
Sá engin skilaboð

„Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa rætt sjálfur við neina þolendur. Ekki hélt hann því heldur fram að hafa sjálfur séð nein kynferðisleg skilaboð sem brotaþoli ætti að hafa sent þolendum eða að heimildarmaður hans hefði sagst hafa séð slík skilaboð,“ segir í dómnum.

Því hefðu ekki verið færð nein rök fyrir því að hann hefði mátt treysta orðum heimildarmanns síns. Ákærði mætti gera sér grein fyrir því að hann sjálfur teldist ekki hlutlaus í garð brotaþola er hann ritaði og birti ummæli sín. Því hafi honum borið að sýna sérstaka aðgætni við mat á réttmæti upplýsinga heimildarmannsins.

Sjá einnig: Sakaði lögreglumann um framhjáhald og kynferðisbrot

Dómurinn taldi því að ákærði Emil hefði ekki fært sönnur á efni ummælanna. Ummælin voru úr hófi fram með tilliti til þess framburðar hans að með orðunum „táningum og unglingsstelpum“ hefði hann átt við konur allt að 30 til 35 ára aldri. Var hann því sakfelldur fyrir ummælin.

Ummæli innan marka tjáningarfrelsis

Emil var hins vegar sýknaður af ákæru vegna fjögurra ummæla sem sneru að meintu einelti lögrelgumannsins, nefndur A í dómnum:

1) „Hann ([A], sem þú réðst hingað til starfa og haldið hefur verndarvæng yfir) er þekktur fyrir sitt einelti í garð almennra borgara eftir að hann gekk í lögregluna.“

2) „[A] mun halda áfram sínu einelti, í garð samborgara sinna, þegar hann hefur stöðu til þess. Hann hefur ekki vit á öðru meðan hann kemst upp með það og yfirmenn hans halda hlífðarskyldi yfir honum.“

3) „[A] mun halda áfram eineltinu gagnvart aðilum meðan hann kemst upp með það. Hann hefur ítrekað sýnt það í verkum, sem gjörðum.“

7) „Hann mun halda áfram eineltinu, sem lögreglumaður og hefur ekki vit á að hætta því misnota sína stöðu meðan yfirmenn hans grípa ekki í taumana, og hann kemst upp með a það, […]“.“

Þótti gildisdómurinn í ummælunum að ofan vera innan þeirra marka sem tjáningarfrelsið veiti.

Var Emil dæmdur til að greiða 30 þúsund krónur í sekt í ríkissjóð og auk þess 150 þúsund krónur í miskabætur til lögreglumannsins. Sá hafði farið fram á 300 þúsund krónur í bætur.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×