Innlent

Sakaði lögreglumann um einelti, framhjáhald og kynferðisbrot

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. Vísir/Pjetur
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á sjötugsaldri fyrir ærumeiðandi aðdróttanir gegn opinberum starfsmanni. Sakaði maðurinn lögreglumann á Austfjörðum um ýmislegt er bæði snerti hans opinbera starf og persónulega hegðun.

Maðurinn lét ummælin falla á Facebook-síðu sinni í maí 2013. Sakaði hann lögreglumanninn um einelti í garð almennra borgara og yfirmenn um að halda hlífðarskyldi yfir honum. Þá sagði hann manninn hafa rústað hjónabandi í öðrum landshluta með því að halda við gifta konu.

Lögreglumaðurinn átti, samkvæmt því sem fram kom í skrifum ákærða á Facebook, einnig að hafa farið í utanlandsferð sem farin var fyrir illa fengið fé. Þá átti hann að hafa sent unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð auk þess sem gefið var í skyn að hann byði upp á afslátt gegn kynferðislegum greiðum.

Ákærði neitaði sök við þingfestingu og fór fram á að málinu yrði vísað frá. Málflutningur vegna frávísunarkröfunnar verður tekinn fyrir í næstu viku í Héraðsdómi Austurlands.

Dæmi eru um að ummæli á Facebook hafi verið dæmd dauð og ómerk. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli Egils „Gillzenegger“ Einarssonar í desember eins og lesa má um hér. Hins vegar komst Hæstiréttur að annarri niðurstöðu, í öðru máli sem Egill höfðaði, í nóvember síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Nauðgaraummælin standa

Egill Einarsson tapaði meiðyrðamáli gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni, sem skrifaði "Fuck you rapist bastard“ á mynd af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×