Innlent

Sendi valdamönnum heimsins áskorun í bréfi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Daldís Perla skrifaði undir opið bréf til ráðamanna heimsins.
Daldís Perla skrifaði undir opið bréf til ráðamanna heimsins. Fréttablaðið/Anton
„Ég vona að ofbeldi fari að minnka alls staðar í heiminum. Það er kominn tími til,“ segir Daldís Perla Magnúsdóttir. Daldís er í hópi átján ungmenna hvaðanæva úr heiminum sem skrifa undir opið bréf til ráðamanna heimsins og skora á þá að binda enda á ofbeldi gegn börnum. Sjálf varð Daldís fyrir ofbeldi sem barn.

„Bréfið er sent til að minna á að á fimm mínútna fresti deyr barn vegna ofbeldis sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Börnin biðla til ráðamanna að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi gegn börnum og að koma í veg fyrir að fleiri börn láti lífið vegna ofbeldis um allan heim,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, en bréfið er á vegum samtakanna.

„Þetta er náttúrulega hræðilegt og það snertir mig alltaf rosalega mikið að lesa um að þetta sé enn að gerast árið 2015,“ segir Daldís, sem vonast til þess að bréfið verði til þess að leiðtogar ríkja heimsins leggi meiri áherslu á að koma í veg fyrir ofbeldi.

„Þið verðið að grípa til aðgerða núna strax til að binda enda á ofbeldi gegn börnum. Ekki bíða í fimm mínútur í viðbót, líf okkar eru að veði,“ segir í niðurlagi bréfsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×