Innlent

Gluggagægir í Hafnarfirði

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Nokkuð var um pústra milli manna í miðborg Reykjavíkur í nótt en flest málin voru yfirstaðin þegar lögreglu bar að.
Nokkuð var um pústra milli manna í miðborg Reykjavíkur í nótt en flest málin voru yfirstaðin þegar lögreglu bar að. Vísir/Anton
Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Laust fyrir miðnætti var tilkynnt um karlmann sem var að gægjast inn um glugga í íbúðarblokk í Hafnarfirði. Íbúi í blokkinni reyndi að halda manninum þangað til að lögreglan kæmi á vettvang.

Til átaka kom á milli mannanna og flúði maðurinn af vettvangi. Lögregla hafði upp á honum skömmu síðar. Var hann afar ölvaður og gat ekki gert grein fyrir  sér eða háttalagi sínu. Var hann vistaður í fangaklefa þangað til að áfengisvíman rennur af honum. Annars var nokkuð um ölvun og óspektir í miðborg Reykjavíkur í nótt og gistu nokkrir fangageymslu sökum ölvunar.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um ölvun og óspektir í miðborg Reykjavíkur milli nokkurra einstaklinga. Kona á fimmtudagsaldri var handtekin. Hún var talsvert ölvuð að sögn lögreglu og fór ekki að fyrirmælum. Auk hennar var karlmaður á sextugsaldri handtekinn en hann reyndi að hindra störf lögreglu.

Á tíunda tímanum kom eldur upp í veitingahúsi í miðbænum. Var bæði lögregla og slökkvilið sent á vettvang. Þegar þangað var komið voru starfsmenn staðarins búnir að slökkva eldinn en hann hafði komið upp í grilli eldhússins.

Á fimmta tímanum í nótt var karlmaður á fimmtugsaldri handtekinn eftir að tilkynnt hafði verið um ferðir hans í bílskúr í Þingholtunum. Karlmaðurinn viðurkenndi að hafa ætlað að stela verkfærum úr skúrnum. Karlmaðurinn var talsvert annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu og var hann því vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Að sögn lögreglu var nokkuð um pústra milli manna í miðborg Reykjavíkur í nótt en flest málin voru yfirstaðin þegar lögreglu bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×