Innlent

Minni kraftur í bensíni sem blandað er vínanda

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Bíllinn er eitthvert mest notaða samgöngutækið hér á landi.
Bíllinn er eitthvert mest notaða samgöngutækið hér á landi. vísir/Vilhelm
„Olíufélögin Skeljungur/Orkan/Orkan X, og að öllum líkindum N1 og Olís eru byrjuð að blanda vínanda (etanóli) saman við bensínið,“ segir í nýlegri umfjöllun á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

„Vínandanum virðist blandað út í allt bensín í allt að 5% magni og eru engar bensíndælur sérstaklega merktar eða auðkenndar á nokkurn hátt um, að frá þeim komi annaðhvort vínandablandað bensín eða þá óblandað,“ segir á fib.is.

Talsmenn Skeljungs eru sagðir hafa staðfest íblöndunina, en hvorki N1 né Olís svarað fyrirspurn FÍB. „En íblöndunin á sér stað líka hjá þeim samkvæmt traustum heimildum,“ segir í umfjöllun FÍB.

Atlantsolía hefur ekki blandað vínanda á afgreiðslutanka sína og fyrirhugar það ekki að sögn Huga Hreiðarssonar markaðsstjóra Atlantsolíu.

Fram kemur að blöndun etanóls í bensín eigi stoð í lögum sem kveði á um stighækkandi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í ökutækjaeldsneyti úr þremur prósentum frá 2014 í tuttugu prósent árið 2020. Hlutfallið hafi átt að hækka nú um áramótin úr 3,5 í 5,0 prósent.

FÍB segir að til þessa hafi olíufélögin ekki blandað vínanda í bensín en blandað lífrænni olíu við dísilolíu.

Blöndun bensíns er sögð þýða að bílar eyði meira eldsneyti, þar sem orkuinnihald íblöndunarefnisins sé mun minna en bensíns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×