Innlent

Sorphirðu breytt í borginni eftir áramót

Atli Ísleifsson skrifar
Gráar tunnur undir blandaðan úrgang verða tæmdar á fjórtán daga fresti að jafnaði í stað tíu.
Gráar tunnur undir blandaðan úrgang verða tæmdar á fjórtán daga fresti að jafnaði í stað tíu. Vísir/Anton
Breyting verður á tíðni þess sem gráar, bláar og grænar sorptunnur eru tæmdar í Reykjavík eftir áramót. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að breytingin sé rakin til tilkomu grænu tunnunnar fyrr á árinu.

Gráar tunnur undir blandaðan úrgang verða tæmdar á fjórtán daga fresti að jafnaði í stað tíu. „Tilgangur þessar breytinga er að mæta þeirri rúmmálsminnkun sem söfnun plasts í sér tunnu við heimili leiðir af sér en síðan í október hafa Reykvíkingar getað pantað græna tunnu undir plast við heimili. Með flokkun eykst endurvinnsla plasts og magn blandaðs úrgangs sem fer til urðunar minnkar.

Hirða bláu tunnunar undir pappírsefni og grænu tunnunnar undir plast breytist. Bláa tunnan verður tæmd á 21 daga fresti að jafnaði í stað 20 daga áður. Græna tunnan undir verður einnig losuð á 21 daga fresti í stað 28 daga eins og verið hefur. Íbúar geta valið um að fá tunnu undir plast og pappír við heimili sitt gegn gjaldi eða að fara með plastið á grenndar- eða endurvinnslustöðvar SORPU bs,“ segir í tilkynningunni.

Byrjað verður að hirða samkvæmt nýju fyrirkomulagi þann 4. janúar næstkomandi.

Nánar má lesa um málið á vef Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×