Innlent

Léttir að hætta sem sérstakur saksóknari en spennandi að taka við nýju embætti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. vísir/gva
Seinasti starfsdagur sérstaks saksóknara er í dag en nýtt embætti héraðssaksóknara tekur við um áramótin. Ólafur Þór Hauksson hefur verið sérstakur saksóknari frá því embættinu var komið á laggirnar fyrir 7 árum síðan en hann verður héraðssaksóknari. Hann segir það vissulega undarlega tilfinningu að nú sé komið að þessum tímamótum.

„Þetta átti nú bara að standa í tvö ár en nú er liðinn þessi tími, á sjöunda ár, þannig að þetta eru auðvitað ákveðinn tímamót. En þetta er annars vegar léttir og hins vegar bara spenna að takast á við ný verkefni eftir áramót,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Embætti sérstaks saksóknara var stofnað til þess að rannsaka efnahagsbrot í kjölfar hrunsins 2008 og eftir atvikum saksækja fólk. Það er ekki ofsögum sagt að embættið hafi verið umdeilt en Ólafur segist skilja sáttur við það. Embætti héraðssaksóknara er svo annars eðlis.

„Það verður þarna töluverð breyting. Embætti héraðssaksóknara mun taka yfir öll þau verkefni sérstaks saksóknara sem eftir standa. Síðan bætist við ákæruvaldið í þeim málum sem ríkissaksóknari hefur hingað til haft á sínu borði en það eru þessi alvarlegustu mál, kynferðisbrot, ofbeldismál og stærri fíkniefnamál.“

Auk þess verður starfrækt peningaþvættisskrifstofa og skrifstofa sem sjá mun um endurheimtur ólögmæts ávinning hjá héraðssaksóknara og þá munu mál þar sem lögreglumenn sæta kæru og mál sem snúa að brotum gegn valdstjórninni vera hjá hinu nýja embætti.

Ólafur segir nokkrar mannabreytingar fylgja embætti héraðssaksóknara en þar munu starfa um 50 manns. Það komi starfsmenn frá ríkissaksóknara og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu en þrír starfsmenn hætta um áramótin.

„Þetta er sá fjöldi starfsmanna sem fjárheimildirnar frá Alþingi núna gera ráð fyrir en þetta er svipaður fjöldi starfsmanna og verið hefur hjá sérstökum saksóknara.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×