Lífið

Orri í Sigur Rós framleiðir aðra mynd um talandi hunda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Auglýsing fyrir Jurassic Bark
Auglýsing fyrir Jurassic Bark
Orri Páll Dýrason, trommari hljómsveitarinnar Sigur Rós, er einn af framleiðendum kvikmyndarinnar Jurassic Bark, sem væntanleg er í kvikmyndahús á næsta ári.

Er þar á ferðinni sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar The Three Dogateers sem kom út á síðasta ári og fylgdi eftir ævintýrum þriggja talandi hunda sem björguðu jólunum. Þá mynd framleiddi Orri einnig og naut þá meðal annars liðsinnis Georg Holm, bassaleikara Sigur Rósar.

Nú hefur fyrsta stiklan fyrir hina væntanlegu Jurassic Bark ratað á netið. Fram kemur á vef Pitchfork að myndin fjalli um tvo geimhunda sem ferðast stjörnuþoka á milli í leit sinni að „upplýsingabeininu“ (e. bone of enlightenment).

Þó svo að nafnið kunni ekki að gefa það til kynna þá virðist myndin, af stiklunni að dæma, gera góðlátlegt grín að nýjustu Star Wars-myndinni, The Force Awakens, en ekki Jurassic Park-myndabálknum.

Meðal handritshöfunda myndarinnar er Lisa Baget sem einnig skrifaði myndina Paranormal Movie sem kom út árið 2013. Á vef IMDB er hún með einkunnina 2.2.

Stikluna fyrir Jurassic Bark má sjá hér að neðan.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.