Enski boltinn

Litlu liða jólin í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta hefur verið haust óvæntra úrslita í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og lið Leicester City hefur heldur betur stolið senunni með því að vera í toppsætinu um jólin.

Það eru samt fleiri „lítil“ lið að bíta frá sér þessa dagana. Leicester hefur unnið hvern leikinn á fætur öðrum og var búið að tryggja sér efsta sætið um jólin áður en liðin í næstu sætum spiluðu sinn leik í umferð síðustu helgar.

Nýliðarnir Watford og Bournemouth hafa líka komið skemmtilega á óvart með kraftmikilli og skemmtilegri spilamennsku en þessi lið sýna að rómantíkin lifir enn.

Riyad Mahrez og Jamie Vardy eru mennirnir á bakvið velgengni Leicester.vísir/getty
Leicester

Staða mála um jólin

Leicester er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins tapað einum leik á öllu tímabilinu.

Tímabilið í fyrra

Leicester City var í fallsæti frá 10. til 33. umferðar á síðasta tímabili en vann sjö af síðustu átta leikjum sínum og endaði í 14. sæti.

Tímabilið í fyrra

Leicester City var í fallsæti frá 10. til 33. umferðar á síðasta tímabili en vann sjö af síðustu átta leikjum sínum og endaði í 14. sæti.

Síðasti tapleikur liðsins

Eina tap Leicester City í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili kom á móti Arsenal 26. september eða fyrir 88 dögum.

graf/fbl
Framhaldið

Það mun reyna á Leicester-liðið milli jóla og nýárs. Liðið heimsækir fyrst Liverpool á Anfield á annan í jólum og tekur síðan á móti Manchester City þremur dögum síðar. Eftir heimaleik á móti Bournemouth kemur síðan leikur á móti Tottenham á White Hart Lane.

Knattspyrnustjórinn

Claudio Ranieri er á sínu fyrsta tímabili með liðið en hann tók við í sumar eftir að samstarfserfiðleikar urðu til þess að Nigel Pearson var látinn fara þrátt fyrir gott gengi á síðustu leiktíð. Ranieri var ekki í miklum metum hjá mörgum eftir vandræðalega slæmt gengi gríska landsliðsins undir hans stjórn en hefur sýnt að það var ekki tilviljun að þessi 64 ára Ítali hafi þjálfað lið eins og Chelsea, Valencia, Napoli, Juventus, Roma og Internazionale.

Hetjurnar

Jamie Vardy og Riyad Mahrez­ eru marksæknasta framherjapardeildarinnar. Vardy er markahæsti maður deildarinnar með 15 mörk og hefur alls komið að 19 mörkum liðsins. Mahrez hefur komið að 20 mörkum, skorað fjórtán mörk sjálfur og lagt upp sex.

Odion Ighalo hefur tekið markaskorun Watford á sig.vísir/getty
Watford

Staða mála um jólin

Í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og aðeins einu stigi frá síðasta Meistaradeildarsætinu.

Tímabilið í fyrra

Watford tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með því að ná 2. sætinu í b-deildinni í fyrra. Liðið var á toppnum fyrir lokaumferðina en það spilaði mjög vel eftir áramót.

Síðasti tapleikur

Watford tapaði síðast á móti Manchester United á heimavelli sínum 21. nóvember eða fyrir 32 dögum. Sigurmark United var sjálfsmark á lokamínútunni.

graf/fbl
Framhaldið

Næstu þrír leikir Watford verða örugglega mjög erfiðir, fyrst útileikur á móti Chelsea á öðrum degi jóla og svo heimaleikir á móti Tottenham og Manchester City. Næsti leikur á eftir þessum þremur er síðan heimaleikur á móti Newcastle United.

Knattspyrnustjórinn

Quique Sánchez Flores, fimmtugur Spánverji, tók við liði Watford í sumar af Slavisa Jokanović sem hafði komið Watford-liðinu upp en samið við ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv sem hann kom í Meistaradeildina.

Hetjan

Odion Ighalo hefur verið öflugur fyrir framan markið og er búinn að skora 12 mörk í 17 leikjum. Hann hefur skorað 57 prósent marka liðsins á tímabilinu þar af sjö mörk af ellefu í síðustu fimm sigurleikjum. Ighalo skoraði tvö mörk í 3-0 sigri á Liverpool. Þessi 26 ára Nígeríumaður hóf ferillinn í Evrópu í norsku deildinni, kom fyrst til Watford á láni frá ítalska félaginu Udinese en var svo keyptur. Skoraði 20 mörk í b-deildinni í fyrra og er líklegur til að skora meira í vetur.

Junior Stanislas er búinn að vera frábær að undanförnu.vísir/getty
Bournemouth

Staða mála um jólin

Í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi fyrir ofan Englandsmeistara Chelsea.  

Tímabilið í fyrra

Bournemouth vann ensku b-deildina á síðasta tímabili en liðið komst upp fyrir Watford eftir 3-0 sigur á Charlton Athletic í lokaumferðinni. Bourne­mouth tapaði ekki í síðustu þrettán leikjum sínum.

Síðasti tapleikur

Bournemouth tapaði síðast á móti Newcastle á heimavelli sínum 7. nóvember eða fyrir 46 dögum.

graf/fbl
Framhaldið

Bournemouth fær krefjandi leiki milli jóla og nýárs, fyrst heimaleik á móti Crystal Palace á öðrum degi jóla og svo útileik á móti Arsenal aðeins tveimur dögum síðar. Liðið mætir síðan Leicester á útivelli áður en það fær West Ham í heimsókn.

Knattspyrnustjórinn

Eddie Howe er bara 38 ára og var yngsti knattspyrnustjórinn í ensku deildakeppninni þegar hann var ráðinn fyrst til Bournemouth 2009. Hann fór í stuttan tíma til Burnley en sneri síðan aftur til Bourne­mouth, fór með liðið upp um tvær deildir á þremur árum og kom Bournemouth í ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn.

Hetjan

Junior Stanislas hefur slegið í gegn í síðustu leikjum og er gott dæmi um leikmann sem Eddie Howe er fá það besta frá. Þessi 26 ára gamli kantmaður komst ekki í liðið í b-deildinni í fyrra en hefur blómstrað í úrvalsdeildinni í vetur. Stanislas skoraði tvö mörk í dramatísku 3-3 jafntefli á móti Everton og annað marka liðsins í 2-1 sigri á Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×