Innlent

Sækja nýbura í Neskaupstað með þyrlu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór á sjötta tímanum í dag í langt flug áleiðis í Neskaupstað til að sækja nýbura sem koma þarf á sjúkrahús í Reykjavík.

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að ekki sé fært fyrir sjúkraflugvél að sækja börnin vegna aðstæðna og því verður flogið með suðurströndinni með viðkomu á Höfn til eldsneytistöku á báðum leiðum.

„Ljóst er að um 6-7 tíma flug er að ræða,“ segir í tilkynningunni og bætt er við að með í för, auk þyrlulæknis, séu sérhæfður læknir og hjúkrunarfræðingur.

Uppfært klukkan 22.55: Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru nýburarnir ekki enn komnir til Reykjavíkur. Erfið veðurskilyrði austanlands urðu til þess að þyrlan gat ekki lent í Neskaupsstað, heldur þurfti hún að lenda á Breiðdalsvík og gerði það um klukkan tíu.

Þar býður þyrlan átekta á meðan nýburarnir verða fluttir landleiðina til Breiðdalsvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×