Enski boltinn

Þúsund daga þjáningasaga Sturridge

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. Vísir/Getty
„Daniel verður að læra hvað er verkur og hvað er alvöru verkur.“ Þetta sagði Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, í síðasta mánuði eftir að í ljós kom að endurkomu Daniels Sturridge yrði seinkað um nokkra daga. Sturridge hafði meiðst á fæti á æfingu og gat ekki spilað með Liverpool gegn Bordeaux í Evrópudeildinni þann 26. nóvember. Klopp hefur aðeins verið nokkrar vikur í starfi hjá félaginu en hefur nú upplifað þrenn mismunandi meiðsli hjá Sturridge.

En þremur dögum síðar spilaði hann sem varamaður í 1-0 sigri á Swansea. Öðrum þremur dögum síðar var hann í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn í tæpa tvo mánuði og í fyrsta sinn undir stjórn Klopps er hann skoraði tvívegis í 6-1 bursti á Southampton í deildabikarnum.

Klopp kættist og stuðningsmennirnir með, sem eðlilegt er. Nú skyldi Sturridge loksins komast á almennilegân skrið og Liverpool-liðið fylgja með. Honum var hlíft gegn Newcastle um helgina, þar sem hann var varamaður, en eftir 62 markalausar mínútur ákvað Klopp að gera tvöfalda skiptingu á sínu liði og setja þá Sturridge og Roberto Firmino inn á.

Það gekk ekki upp. Newcastle vann, 2-0, og hafi það ekki verið nógu slæmt kom í ljós eftir leik að Sturridge meiddist enn einu sinni, nú aftan í læri. Í fyrstu var talið að hann yrði frá fram yfir áramót en samkvæmt nýjustu fregnum er stefnt að því að hann geti spilað með Liverpool þegar liðið mætir spútnikliði Leicester á öðrum degi jóla.

Sturridge er uppalinn hjá Man­chester City og spilaði þar fyrstu þrjú ár atvinnumannsferils síns. Árið 2009 fór hann svo til Chelsea þar sem hann var í fjögur tímabil (þar af í hálft tímabil sem lánsmaður hjá Bolton) og skoraði þrettán mörk í 63 leikjum.

Þann 2. janúar 2013 keypti Liverpool Sturridge frá Chelsea fyrir um tólf milljónir punda. Ákveðið var að veðja á afar hæfileikaríkan 24 ára framherja sem hafði samt meiðst í sautján mismunandi skipti og verið frá í samtals 516 daga á sínum unga ferli.

Sturridge byrjaði þó afar vel og þrátt fyrir að hafa meiðst í fimm mismunandi skipti missti hann aðeins af þrettán leikjum fyrsta eina og hálfa tímabilið sitt. Þá afrekaði hann að skora 31 deildarmark í 43 leikjum og myndaði með Luis Suarez skæðasta framherjapar enska boltans. Saman skoruðu þeir 52 mörk tímabilið 2013-14 og Liverpool var hársbreidd frá titlinum eins og frægt er.

Suarez fór eftir tímabilið og Sturr­idge hefur vart séð til sólar síðan. Meiðslin eru nú orðin 35 talsins og er því nema von að Sturridge vilji hlífa sér, sama hvað Klopp segir?

Mynd/Getty. Grafík/Fréttablaðið/Garðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×