Innlent

Ómögulegt að lifa á 185 þúsund krónum á mánuði

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til 9,7 prósenta hækkun.
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til 9,7 prósenta hækkun. Fréttablaðið/GVA
Forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara funduðu með fjárlaganefnd í gær um kjör örorku- og lífeyrisþega og kröfðust þess að afturvirk hækkun bóta yrði tekin upp.

Tilefni fundarins var beiðni minni hluta fjárlaganefndar um að halda opinn fund um tillögu minnihlutans um breytingartillögu hans á fjáraukalögum ársins 2015 þess efnis að örorku- og lífeyrisþegar fengju greiddar afturvirkar bætur frá 1. maí 2015 líkt og fleiri stéttir fengu. Tillaga minnihlutans var felld á þingfundi síðastliðinn þriðjudag. 

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, bendir á að þingmenn og ráðherrar hafi meðal annars fengið afturvirka hækkun og segir það af og frá að öryrkjar geti lifað við núverandi kjör.

„Öryrkjar búa ekki við jafnræði þegar kemur að kjörum. Annars vegar hækkuðu laun þjóðkjörinna fulltrúa um 96 þúsund á árinu 2015, laun ráðherra um meira en hundrað þúsund krónur á meðan lífeyrir örorkulífeyrisþega hefur hækkað um fimm þúsund krónur á árinu,“ segir Ellen.

„Við bentum á að það er þrennt í okkar kjarabaráttu sem við leggjum áherslu á,“ segir Ellen og nefnir kröfu ÖBÍ um að örorkulífeyrir verði 300 þúsund krónur eða hærri líkt og lágmarkslaun á vinnumarkaði, að lífeyrir verði greiddar afturvirkt líkt og minnihluti fjárlaganefndar hefur lagt til og einnig að svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót verði hætt.

Fjárlaganefnd hefur lagt til 9,7 prósenta hækkun bóta um áramótin en samtökin tvö telja þá hækkun ófullnægjandi.

„Við bentum á að með þessari hækkun sem er verið að boða núna bætist eitthvað örlítið við þannig að örorkulífeyrisþegar fara úr 172 þúsund krónum á mánuði í sirka 182 þúsund krónur á mánuði að lágmarki.“

Nefndarmenn bentu á að um 2,2 milljarðar hafa verið settir inn í kerfið á síðastliðnum árum og hækkun komandi árs til að koma til móts við bótaþega. „Það er alveg sama hvort fólk segi 9,7 prósent eða nefni einhverja milljarða, á mannamáli þýðir þetta bara það að það er ekki hægt að lifa á 185 þúsund krónum á mánuði.“

Ellen vísar í 69. grein almannatryggingalaga sem kveður á um að lífeyrir eigi að halda í við í launaþróun og megi ekki hækka minna en nemur vísitölu neysluverðs. Hún segir að þessu ákvæði sé ekki fylgt.

Öryrkjabandalagið hefur efnt til mótmæla fyrir framan Alþingishúsið í dag klukkan tíu fyrir hádegi.


Tengdar fréttir

Öryrkjar og eldri borgarar líða margir skort

Forystufólk Öryrkjabandalagsins og samtaka eldri borgara ítreka kröfur sínar á fundi með fjárlaganefnd um að lífeyrisgreiðslur hækki í samræmi við laun á vinnumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×