Innlent

Stytting götulýsingar sparar 5 milljónir á ári

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Daglegur tími götulýsingar í Reykjavík var styttur um um það bil 14 mínútur á dag.
Daglegur tími götulýsingar í Reykjavík var styttur um um það bil 14 mínútur á dag. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Reiknaður sparnaður frá því að tími götulýsingar í Reykjavík var styttur árið 2009 er 5 milljónir króna á ári. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur var leitað margvíslegra leiða til að draga úr kostnaði eftir hrun. Í þessu tilviki hefur sparast í orkukaupum auk þess sem sjaldnar þarf að skipta um ljósaperur.

Að meðaltali er kveikt á götulýsingu 7 mínútum síðar á kvöldin. Að morgni logar að meðaltali 7 mínútum skemur. Götulýsing logaði áður fyrr í um 4.000 klst. á ári en logar nú í 3.700 klst. Þar af eru 85 klst. vegna breytts viðmiðs í birtustigi en annar sparnaður er vegna betri stýribúnaðar.

Götulýsingin stjórnast af ljósmæli sem tekur mið af dagsbirtu. Reglan er sú að það kviknar á götuljósum um leið og byrjar að dimma. Viðmiðið er 20 lux. Undantekning frá þessari stýringu er gerð nokkra daga að vetrinum en þá er götulýsing látin loga lengur til að ekki slokkni á morgnana frá 7.45 til 8.30 þegar börn eru á leið í skólann.

Þetta er auðvitað ekki mikill sparnaður í krónum. Kerfislega er mikilvægið aftur á móti meira. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
„Þetta er auðvitað ekki mikill sparnaður í krónum. Kerfislega er mikilvægið aftur á móti meira,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

„Það er nefnilega þannig að lýsing er frekar óheppilegur notandi í raforkukerfi Íslendinga sem byggist að mestu á vatnsafli. Orkuþörf lýsingar er einmitt mest þegar framleiðslugeta vatnsafls er minnst, það er að segja á veturna. Þess vegna er mikilvægt að draga úr aflþörf á veturna.“

Sigurður segir dægursveifluna svo annað mál. „Á nóttunni minnkar aflþörf verulega og því er götulýsing ekki mikið aukaálag. En á veturna fara ljósaskipti og almennt álag á kerfinu saman. Ef hægt er að minnka orkunotkun á þeim mörkum sparast aflþörf. Hins vegar styttist hratt í að LED-lýsing taki algerlega við, sem er miklu orkunýtnari og þá endingarbetri. Þá er ekki ólíklegt að þetta gangi til baka, það er að segja að ljósgæði verði bætt og aukin enda mun ódýrara og sveigjanleikinn meiri.“

Í tengslum við styttingu tíma götulýsingar voru haldnir fundnir um umferðaröryggi með lögreglu, tryggingafélögum og umferðarstofu. Sammælst var um að grípa til aðgerða ef þess þyrfti. Ekki hefur þótt ástæða til að kalla eftir slíku, samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skiplagssviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×