Innlent

Unnur Brá segir það þess virði að skoða hugmyndir Bjartar um fangelsismál

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir og Björt Ólafsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir og Björt Ólafsdóttir. Vísir/Vilhelm/Stefán
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að hugmyndir Bjartar Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar, um að láta hættulausa glæpamenn taka út sína refsingu utan veggja fangelsis séu þess virði að skoða.

Unnur Brá ræddi þessi mál í Reykjavík síðdegis fyrr í dag þar sem hún sagði að nú þegar væri til umræðu frumvarp innanríkisráðherra um fullnustu refsinga en að þessi mál væru alltaf til skoðunar.

„Meginatriðið er að refsingin verði til þess að hafa fælingarmátt og eins það að stuðla að betrun þess sem brotið framdi. Þetta eru meginsjónarmiðin að baki,“ sagði Unnur Brá.

Sjá einnig: Bankamenn eiga ekki að vera í fangelsi

Björt ræddi hugmyndir sínar í Föstudagsviðtalinu í Fréttablaðinu og hér á Vísi í morgun. Þar velti hún því fyrir sér hvort ekki væri hægt að finna aðrar leiðir fyrir menn sem ekki eru hættulegir umhverfi sínu til að taka út dóma sína. „Ég nefni sem dæmi fanga sem mikið hefur verið rætt um, hvítflibba­glæpamenn sem sitja á Kvíabryggju. Ég veit ekki alveg af hverju við erum að loka þannig fólk inni.“

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að mikilvægt sé að tryggja að skýrar reglur gildi um hverjir eiga að sitja inni í fangelsi, verði hugmyndir Bjartar skoðaðar frekar.

„Það er ákaflega mikilvægt að leikreglurnar, ef menn ákveða að gera þetta, séu afdráttarlausar,“ sagði Páll aðspurður um tillöguna í samtali við Vísi fyrr í dag. „Það má ekki vera mikið um matskennd úrræði í þessu þannig að það sé undir til að mynda fangelsismálastofnun komið hvort menn teljast hættulegir eða ekki hættulegir eða æskilegir til að loka inni og svo framvegis.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×