Enski boltinn

Leicester endurheimti toppsætið með sigri á meisturunum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vardy er óstöðvandi.
Vardy er óstöðvandi. vísir/getty
Leicester City endurheimti toppsætið í ensku úrvalsdeildinni með 2-1 sigri á Englandsmeisturum Chelsea á King Power vellinum í kvöld.

Það voru kunnugleg nöfn á skotskónum fyrir Leicester í kvöld. Jamie Vardy kom liðinu yfir á 34. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Riyad Mahrez. Þetta var 15. mark Vardy á tímabilinu en hann er markahæstur í úrvalsdeildinni.

Mahrez jók svo muninn í 2-0 eftir þriggja mínútna leik í seinni hálfleik með glæsilegu marki. Mahrez hefur einnig farið á kostum í vetur en hann hefur skorað 11 mörk og átt sjö stoðsendingar í úrvalsdeildinni.

Chelsea-menn vöknuðu aðeins til lífsins eftir mark Mahrez og varamaðurinn Loïc Remy gaf Englandsmeisturunum von þegar hann minnkaði muninn á 77. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Pedro frá vinstri.

Fleiri urðu mörkin ekki og Leicester fagnaði góðum sigri, sem var sá sjötti í síðustu sjö leikjum liðsins.

Á meðan Leicester gengur allt í haginn er allt í rugli hjá Chelsea sem er aðeins með 15 stig í 16. sætinu, einu stigi frá fallsæti.

Leicester 1-0 Chelsea Leicester 2-0 Chelsea Leicester 2-1 Chelsea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×