Enski boltinn

Mourinho: Útilokað að ná Meistaradeildarsæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho undrandi á hliðarlínunni í kvöld.
Mourinho undrandi á hliðarlínunni í kvöld. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Leicester City hafi unnið sanngjarnan sigur í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Tveir heitustu leikmenn úrvalsdeildarinnar, Jamie Vardy og Riyad Mahrez, komu Leicester í 2-0 en Chelsea-menn sóttu í sig veðrið í seinni hálfleiknum. Loïc Remy minnkaði muninn í 2-1 á 77. mínútu en Chelsea tókst ekki að jafna metin á þeim 13 mínútum sem eftir voru af leiknum.

„Við vorum betra liðið í 20-25 mínútur, í mesta lagi hálftíma. Þeir voru sterkari aðilinn í klukkutíma,“ sagði Mourinho eftir leik.

Það hefur hvorki gengið né rekið hjá Chelsea á tímabilinu en Englandsmeistararnir eru í 16. sæti úrvalsdeildarinnar með 15 stig, aðeins stigi frá fallsæti.

„Það er erfitt að horfa upp á leikmenn sem eru ekki að spila eins vel og þeir geta. Það eina sem við getum gert að halda áfram að leggja okkur alla fram. Ég get ekki kvartað yfir framlagi leikmanna á æfingum en það er pirrandi að sjá muninn á þeim á æfingum og í leikjum,“ sagði Mourinho ennfremur.

Portúgalinn segir útilokað að Chelsea nái Meistaradeildarsæti í ár.

„Við getum gleymt því að enda í efstu fjórum sætunum, það liggur ljóst fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×