Enski boltinn

Markmið toppliðsins enn að halda sér uppi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claudio Ranieri fagnar í gær.
Claudio Ranieri fagnar í gær. Vísir/Getty
Claudio Ranieri hefur náð ótrúlegum árangri með lið Leicester í haust en liðið trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Leicester vann Englandsmeistara Chelsea, 2-1, og náði um leið toppsætinu á nýjan leik og er þar að auki 20 stigum fyrir ofan Chelsea, sem er einu stigi frá fallsæti.

„Þetta er ótrúlegur tími. Við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur því ég vil ekki vakna upp frá þessum draumi. Ég vil dreyma áfram með stuðningsmönnunum,“ sagði Ranieri eftir sigurinn í gær.

Hann sagði að hans menn hefðu verið frábærir fyrsta klukkutímann gegn Chelsea en að síðustu 30 mínúturnar hafi verið erfiðar. Ranieri var þó ánægður með hans menn, heilt yfir.

„Við spiluðum mjög, mjög vel. Við vorum þéttir og reyndum okkar besta allt til loka. Það er gott,“ sagði hann.

Markmið Leicester í haust hefur verið að komast í 40 stig til að tryggja veru sína í deildinni í ett ár til viðbótar. Það markmið hefur ekki breyst. „Ég sagði við leikmenn mína að við þyrftum fimm stig til viðbótar og þá erum við öruggir. Ég setti okkur það markmið fyrir tímabilið að ná 40 stigum. Þegar við náum því þá setjum við okkur annað markmið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×