Innlent

Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir lengra jólafrí borgarfulltrúa

Bjarki Ármannsson skrifar
Kjartan Magnússon telur sjaldan eða aldrei hafa verið ríkara tilefni til þess að nýta fundi borgarstjórnar til að vinna að mikilvægum málum.
Kjartan Magnússon telur sjaldan eða aldrei hafa verið ríkara tilefni til þess að nýta fundi borgarstjórnar til að vinna að mikilvægum málum. Vísir/Vilhelm
Tillaga meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur um að fella niður fyrri borgarstjórnarfund í janúar, og lengja þannig jólafrí borgarfulltrúa um tvær vikur, var felld á borgarstjórnarfundi nú í kvöld. Fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með tillögunni.

„Að undanförnu hefur gætt sívaxandi tilhneigingar hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta að draga úr vægi borgarstjórnarfunda, t.d. með því að vísa fjölmörgum tillögum, sem þar eru fluttar af borgarfulltrúum, til borgarráðs þar sem þeim er ráðið til lykta á lokuðum fundum,“ segir í bókun Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, við afgreiðslu málsins.

„Tillaga borgarstjórnarmeirihlutans um að fella niður fyrri fund borgarstjórnar í janúar og lengja þannig jólafrí borgarfulltrúa, er af sama meiði.“

Segir Kjartan sjaldan eða aldrei hafa verið ríkara tilefni til þess að nýta fundi borgarstjórnar til að vinna að mikilvægum málum, til dæmis fjármálum borgarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins og flugvallarvina greiddu atkvæði með því að fella niður fundinn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu allir atkvæði gegn því.

Alls fór atkvæðagreiðslan því 11-4 en slíkar tillögur þarf að samþykkja mótatkvæðalaust. Verður því fundurinn haldinn þann 5. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×