Innlent

„Munu þurfa að standa aftur og aftur frammi fyrir sömu erfiðu spurningunum“

Heimir már pétursson skrifar
Lengstu umræðu sem fram hefur farið á Alþingi um fjárlagafrumvarp lauk á Alþingi nú síðdegis og hafði þá staðið hátt í áttatíu klukkustundir. Stjórnarandstaðan vildi með umræðunni knýja stjórnarmeirihlutann til breytinga á frumvarpinu en svör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Aþingi á mánudag við þeirri kröfu voru einföld.

„Háttvirtur þingflokksformaður Vinstri grænna var að biðja um einhvers konar fund þar sem stjórnarliðar áttu að tilkynna stjórnarandstöðunni hvað við ætlum að bjóða henni. Ég get svarað þessari spurningu straxvirðulegur forseti. Við ætlum ekki að bjóða neitt. Ekkert,“ sagði Sigmundur Davíð.

Stjórnarandstaðan hefur barist fyrir því að Landspítalinn fái aukin framlög, í takt við það sem yfirstjórn hans hefur talið nauðsynlegt. Sömuleiðis hefur stjórnarandstaðan krafist þess að framlög til Ríkisútvarpsins verði ekki skert.

„Við erum auðvitað ekki í aðstöðu til að semja við ríkisstjórnina. Hún er með þingmeirihluta og hún ræður ferðinni hvað útgjöldin varðar. Verkefni okkar hefur verið að knýja á um breytingar og knýja á um umræðu um forgangsröðunina; á að skilja lífeyrisþega eftir, á að mæta eðlilegum óskum Landspítalans. Nú munu stjórnarþingmenn þurfa að svara því,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar lýstu því yfir á Alþingi í kvöld að þingflokkar þeirra myndu sitja hjá við atkvæðagreiðslu í flestum málum. Árni Páll segir stjórnarandstöðuna þó eiga eftir að koma sínum skoðunum á framfæri.

„Við munum nýta atkvæðagreiðsluna þannig að við munum leggja aftur og aftur fram breytingartillögur um þessi lykilmál; kjör lífeyrisþega, framlög til spítalans og eðlileg framlög til RÚV og munum gera það aftur og aftur. Stjórnarmeirihlutinn mun þurfa að standa aftur og aftur frammi fyrir sömu erfiðu spurningunum,“ sagði Árni Páll og tók Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar,  í svipaðan streng, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.


Tengdar fréttir

Segir þingmann í salnum undir áhrifum

„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×